Fótbolti

Skilaboð frá FIFA: Hættið að mynda sætu stelpurnar í stúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stelpur úr stuðningsliði íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi.
Stelpur úr stuðningsliði íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi. Vísir/Getty
Nú eru aðeins tveir leikir eftir af heimsmeistaramótinu í fótbolta í Rússlandi og hefur mótið gengið mjög vel. Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, er hins vegar ekki alveg sátt við myndaval sjónvarpsmannanna á mótinu.

Það hefur löngum verið hefð fyrir því að mynda fallegar blómarósir í stúkunni á stórmótum sem þessum. Oftast eru þetta ungar og glæsilegar konur málaðar í skrautlegum litum sinna landa.

Á tímum #metoo byltingarinnar þykir þetta ekki vera við hæfi. Myndavalið á HM í Rússlandi hefur verið gagnrýnt í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og yfirmenn Alþjóðaknattspyrnusambandsins hafa nú hlustað á þennan hóp gagnrýnenda.

Upptökustjórarnir á HM hafa nú fengið formlega kvörtun frá FIFA um hætta að mynda endalaust sætu stelpurnar í stúkunni.

FIFA hefur farið vel yfir allar upptökur frá mótinu og fundið 30 sérstaklega slæm dæmi um að sjónvarpsmyndavélararnir hafi farið ítrekað á sætu skvísurnar í stúkunni. Þetta kom fram í umfjöllun The Irish Examiner.

FIFA vill þó ekki fá meira af myndum af venjulega fólkinu eða körlunum í stúkunni. Fyrirmæli Alþjóðasambandsins er um að einbeita sér frekar að því að ná nærmyndum af viðbrögðum þjálfara og leikmanna liðanna sem eru að keppa.

Það verður fróðlegt að sjá hvort eitthvað breytist í tveimur síðustu leikjum heimsmeistaramótsins en Belgía og England spila um þriðja sætið á morgun. Frakkland og Króatía leika svo um heimsmeistaratitilinn á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×