Fótbolti

Weah: Kallaður rusl og sagður standa að eilífu í skugga föður míns

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Timothy Weah spilaði fyrsta landsleikinn í mars.
Timothy Weah spilaði fyrsta landsleikinn í mars. vísir/getty
Timothy Weah, leikmaður Paris Saint-Germain og bandaríska landsliðsins í fótbolta, setur stefnuna á að verða besti leikmaður Bandaríkjanna frá upphafi.

Þrátt fyrir að faðir hans sé frá Líberíu og er í dag forseti landsins er Weah frá Bandaríkjunum en hann er fæddur og uppalinn í New York. Hann er mjög stoltur af rótum sínum og vill gera vel fyrir bandaríska landsliðið í framtíðinni.

Hann þarf að ná ansi langt til að komast úr skugga föður síns en George Weah vann átta stóra titla á ferlinum sem leikmaður Monaco, PSG, AC Milan og Chelsea var kjörinn besti leikmaður heims árið 1995.





„Það er til fólk sem segir að ég verði aldrei jafngóður og faðir minn. Sumir kalla mig rusl og spyrja mig hvers vegna ég spila fyrir bandaríska landsliðið. Þetta gerir bara að verkum að ég vill enn þá frekar verða stjarnan sem Bandaríkin hafa verið að leita að,“ segir Weah í viðtali við Nike.

„Draumur minn er að vera besti leikmaður sögunnar sem kemur frá Bandaríkjunum og New York. Ég vil vera byrjunarliðsmaður í bandaríska landsliðinu og spila fyrir þjóð mína.“

Weah þreytti frumraun sína með Paris Saint-Germain á síðustu leiktíð og spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Bandaríkin í mars þannig ferill hans er virkilega að fara af stað.

„Ég hef gert margt til að komast hingað. Ég hef mætt mikið af fólki sem sögðu mér að ég myndi alltaf standa í skugga föður míns. Ég nota þetta bara sem hvatningu til að ná lengra. Ég elska föður minn en ég vil búa til mitt eigið nafn í boltanum,“ segir Timothy Weah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×