Íslenski boltinn

Hitinn hrellir Valsmenn í Þrándheimi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnar Sveinn í Evrópuleik á síðustu leiktíð.
Arnar Sveinn í Evrópuleik á síðustu leiktíð. vísir/andri
Valsmenn eru nú staddir í Þrándheimi í Noregi en liðið spilar við heimamenn í Rosenborg annað kvöld. Hitabylgja er í Noregi og hefur valdið einhverjum vandræðum.

Leikurinn er síðari leikur liðanna í fyrstu umferð í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Valur vann fyrri leikinn 1-0. Markið skoraði Eiður Aron Sigurbjörnsson.

Þeir eru því í ágætis stöðu fyrir síðari leikinn, sem verður spilaður annað kvöld, en ljóst er að verkefnið verður ærið. Sigurliðið úr rimmunni mætir Celtic í næstu umferð.

Valsmenn flugu frá Reykjavíkurflugvelli til Þránheims í gær og æfðu þar bæði í gær og í dag. Í dag æfðu þeir á sjálfum Lerkendal-leikvanginum sem tekur rúmlega tuttugu þúsund manns.

Hitinn er mikill í Noregi þessa daganna og hann hefur hrellt einhverja Valsmenn. Um þrjátíu stiga hiti var í Þrándheimi í adg og hitinn verður rúmlega tuttugu gráður er flautað verður til leiks á morgun.

Einhverjir Valsmenn hafa lent í vandræðum með hitann og bakvörðurinn Arnar Sveinn Geirsson greinir frá því á Twitter-síðu sinni að flestir leikmenn Vals séu farnir úr rigningu á Íslandi í viftu á herbergin í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×