Erlent

Gantaðist með að hafa myrt eiginkonu sína

Samúel Karl Ólason skrifar
Steve Searle.
Steve Searle. Vísir/Facebook
Bretinn Stephen Searle var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa kyrkt eiginkonu sína, eftir að hann hélt fram hjá henni með kærustu sonar þeirra. Searle sagði að um sjálfsvörn hefði verið að ræða þar sem Anne Searle hefði ráðist á hann með hnífi. Kviðdómendur tóku þó ekki mark á þeirri vörn.

Lögreglan hefur birt hljóðupptöku af símtali Searle til Neyðarlínunnar eftir að hann myrti Anne.

Eftir að hann náði sambandi við Neyðarlínuna sagði hann: „Ég drap konuna mína.“ Þá bætti hann við að hann teldi þetta símtal vera óhefðbundið fyrir þann sem svaraði og eftir langa þögn sagði hann í léttum tón: „Gleðilegt nýtt ár“, en morðið átti sér stað þann 30. desember í fyrra.

Searle sagðist hafa kyrkt eiginkonu sína og að aðstæður væru „undarlegar“. Þegar hann var spurður hvort þau væru bara tvö í húsinu svaraði hann á þá leið að hann væri í rauninni bara einn.

Á upptökunni má einnig heyra þegar Searle fer til dyra og opnar fyrir lögregluþjónum. Hann heilsar þeim kurteislega og segir: „Ahh. Sælir vinir“. Samkvæmt frétt Telegraph sagði hann því næst: „Fyrirgefið. Ég hef verið óþekkur strákur“.

Searle er 64 ára gamall fyrrverandi hermaður og fyrrverandi borgarfulltrúi UKIP í Suffolk. Hann hafði verið giftur Anne, sem var 62 ára, í 45 ár og áttu þau þrjá syni. Upp komst um kynferðislegt samband hans og tengdadóttur hans í júní í fyrra.

Nokkrum dögum fyrir morðið skrifaði Anne jólakveðju á Facebook.

„Gleðileg Jól. Vonandi vegnar ykkur vel og eigið góðan dag. Ég vona að ég verði hérna enn árið 2018. Við sjáum til.“

Meinarfræðingur sagði ljóst að Anne hefði dáið þar sem þrengt hefði verið að öndunarvegi hennar. Ljóst væri að hún hefði misst meðvitund eftir átta til fimmtán sekúndur og hálstakinu hefði verið haldið í einhverjar mínútur til þess að myrða hana.

Searle er sagður hafa sýnt engin viðbrögð þegar dómurinn var kveðinn upp. Refsing hans verður ákveðin á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×