Enski boltinn

Jón Daði: Þakklátur fyrir þetta tækifæri

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson, framherji íslenska landsliðsins og Reading, segir að það sé gaman að vera kominn aftur til móts við félaga sína í Reading.

„Það er frábært að vera kominn til baka og í rútínu. Nú er bara að undirbúa sig með liðinu fyrir vonandi gott tímabil fyrir Reading,” sagði Jón Daði í samtali við heimasíðu Reading.

Hann lenti í Austurríki í dag þar sem hann hitti félaga sína í æfingarferð.

„Ég fékk rúmar tvær vikur í frí eftir leikinn gegn Króatíu. Það var mikilvægt að ná andanum, líkamlega og andlega. Ég eyddi þessu tíma með unnustu minni og við áttum frábæra tíma.”

„Ég hélt mér í formi svo ég myndi ekki vera langt frá strákunum hér sem hafa verið að æfa eins og brjálæðingar. Ég verð að komast strax inn í hlutina því það er ekki langt þangað til að tímabilið hefst. Ég verð að komast í smá fótbolta.”

Næst beindust spjótin að HM og voru forsvarsmenn síðunnar forvitnir um hvernig þessi lífsreynsla var fyrir sinn mann.

„Þetta var frábær lífsreynsla og ekki eitthvað sem mig grunaði er ég var krakki. Við vorum langt frá þessu sem landslið á sínum tíma svo að ná þessu var draumur sem var ekki svo raunhæfur.”

„Að vera á HM var draumur. Ég er þakklátur að hafa fengð þetta tækifæri á mínum ferli, þessum stutta ferli sem þú ert sem fótboltamaður. Það var frábært að spila gegn Nígeríu og spila á HM.”

„Þetta er eitthvað sem ég mun alltaf muna og frábær lífsreynsla. Með meiri árangri kemur meiri pressa og væntingar. Þetta sýnir að liðið og þjóðin er að gera eitthvað rétt. Velgengni er langt ferðalag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×