Erlent

Börn bitin af hákörlum í New York

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Talið er að Lola Pollina muni ná sér að fullu.
Talið er að Lola Pollina muni ná sér að fullu. Barbara Police
Talið er að hákarlar hafi bitið tvö börn sem synt höfðu í sjónum við New York-ríki í Bandaríkjunum á dögunum. Ef rétt reynist er um að ræða fyrstu hákarlaárásirnar í ríkinu í 70 ár.

Börnin, 12 ára stelpa og 13 ára strákur, hafa bæði verið útskrifuð af sjúkrahúsi. Þau höfðu bæði fengið lítil stungusár á lappirnar og búist er við því að þau muni ná sér að fullu. Úr sári drengsins var dregin það sem virðist vera lítil tönn, tönn sem talin er hafa verið í skolti lítils hákarls. Tönnin hefur verið send til greiningar og búist er við niðurstöðum á næstu vikum.

Árásirnar eru ekki taldar tengjast með beinum hætti, þær áttu sér stað með nokkurra daga millibili og rúmlega 3 kílómetrar eru á milli svæðanna þar sem börnin slösuðust.

Stúlkan segist í samtali við fjölmiðla ytra vera handviss að um hákarl hafi verið að ræða. Hún hafi fundið fyrir sársauka í fætinum og tekið þá eftir því að hann var allur blóðugur. Því næst hafi hún rekið auga í ugga á því sem virtist vera um eins metra langur hákarl.

Sem fyrr segir eru hákarlaárásir gríðarlega sjaldgæfar í ríkinu. Aðeins er vitað um 10 tilfelli, það síðasta árið 1948.

Hér að neðan má sjá frétt ABC um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×