Erlent

Minnst 17 menn nauðguðu tólf ára stúlku ítrekað

Samúel Karl Ólason skrifar
Árið 2016 voru tilkynntar rúmlega hundrað nauðganir á degi hverjum í Indlandi.
Árið 2016 voru tilkynntar rúmlega hundrað nauðganir á degi hverjum í Indlandi. Vísir/AP
Minnst sautján menn hafa verið ákærðir í borginni Chennai í Indlandi fyrir að hafa ítrekað nauðgað tólf ára stúlku á sjö mánaða tímabili. Mennirnir eru sagðir hafa tekið upp nauðganir og hótað því að birta myndbönd á netinu. Sömuleiðis hótuðu þeir að beita stúlkuna ofbeldi, segði hún frá nauðgununum.

Stúlkan mun hafa sagt lögreglunni að 66 ára gamall maður sem vann við að stýra lyftu fjölbýlishússins sem hún býr í hafi byrlað henni ólyfjan og nauðgað henni. Þremur dögum seinna hafi hann snúið aftur með fleiri mönnum sem hafi einnig nauðgað henni og á áðurnefndu tímabili hafi mönnunum sífellt fjölgað.

Fréttum ytra ber ekki saman um fjölda manna sem hafa verið ákærðir. Guardian segir þá vera sautján en Times of India segir átján hafa verið handtekna og fjögurra sé enn leitað. Þá eru sömuleiðis miðlar sem segja stúlkuna vera ellefu ára.



Stúlkan mun þó hafa verið færð á sjúkrahús á sunnudaginn eftir hún sagði systur sinni frá ofbeldinu. Mennirnir voru handteknir á mánudaginn og ákærðir fyrir nauðgun, morðtilraun og hótanir.

Samtök lögmanna í héraðinu hafa tilkynnt að engir lögmenn munu koma mönnunum til varnar. Þetta er í fyrsta sinn sem samtökin grípa til slíkra aðgerða.

Þegar þeir voru fluttir fyrir dómara veittist hópur fólks að þeim, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Árið 2016 voru tilkynntar rúmlega hundrað nauðganir á degi hverjum í Indlandi. Af hverjum hundrað tilfellum var í sex skipti um nauðganir á stúlkum undir tólf ára aldri að ræða.

Í janúar var átta ára stúlku rænt og var henni nauðgað í fimm daga áður en hún var barin til dauða með grjóti. það leiddi til lagasetningar varðandi dauðadóma fyrir það að nauðga börnum undir tólf ára aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×