Tap gegn Finnum og Ísland úr leik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tryggvi Snær Hlinason skoraði 6 stig í liði Íslands
Tryggvi Snær Hlinason skoraði 6 stig í liði Íslands Vísir
Ísland er úr leik í undankeppni HM eftir fjórtán stiga tap fyrir Finnum ytra. Ísland lauk leik á botni F riðils.

Finnar voru með alla sína bestu menn heila, þar á meðal Lauri Markkanen sem spilar með Chicago Bulls í NBA deildinni, og ljóst að íslenska liðinu beið erfitt verkefni.

Íslensku strákunum gekk erfiðlega að fóta sig í upphafi leiks og náðu Finnar fljótt upp nærri tíu stiga forystu. Um miðbik fyrsta leikhluta komst íslenska liðið í betri takt og lauk fyrsta leikhlutanum með níu stiga mun 28-19.

Annar leikhluti var sá besti hjá íslenska liðinu í leiknum og fór Haukur Helgi Pálsson fyrir liðinu. Haukur lauk leik stigahæstur Íslendinga með 16 stig. Ísland komst yfir í fyrsta og eina skipti leiksins um miðjan annan leikhluta þegar Martin Hermannsson sýndi snilli sína með laglegri hreyfingu. Forystan entist þó aðeins í 18 sekúndur því Finnar svöruðu strax með þriggja stiga skoti frá Jamar Wilson.

Mjög jafnt var með liðunum fram að hálfleik og var staðan 44-41 þegar flautað var til hálfleiks. Martin byrjaði seinni hálfleikinn á því að setja niður þriggja stiga skot og jafna leikinn.

Finnar svöruðu hins vegar með því að setja næstu tólf stig og með því áhlaupi má segja að úrslitin hafi verið ráðin því íslenska liðið náði aldrei að koma almennilega til baka eftir það. Þeir reyndu, en þetta finnska lið var bara númeri of stórt og sýndi það sig í lokin.

Í fjórða leikhluta fóru bæði Martin og Kristófer Acox út af með fimm villur og undir lokinn fengu yngri og óreyndari leikmenn að spreyta sig. Lokatölur urðu 91-77 fyrir Finna.

Íslenska liðið er því eins og áður segir úr leik. Það eru hins vegar töpin tvö gegn Búlgurum frekar en þessi leikur sem réðu þeim úrslitum, það voru leikir sem hefðu þurft að vinnast þar sem Búlgarir voru á pappírnum auðveldasti andstæðingurinn. Ísland og Búlgaría enduðu með sjö stig en Búlgarir með innbyrðisviðureignir á Íslendinga.

Stigaskor Íslands:

Haukur Helgi Pálsson 16 stig, Martin Hermannsson 13 stig, Elvar Már Friðriksson 10 stig, Hörður Axel Vilhjálmsson 9 stig, Hlynur Bæringsson 8 sitg, Jón Axel Guðmundsson 7 stig, Tryggvi Snær Hlinason 6 stig, Kristófer Acox 5 stig, Hjálmar Stefánsson 2 stig, Ægir Þór Steinarsson 1 stig. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira