Körfubolti

Benedikt: Veit við eigum eftir að komast á stórmót aftur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Íslenska landsliðið í körfubolta tapaði í gær gegn Finnum í undankeppni HM og er úr leik í keppninni. Tapið þýðir að íslenska liðið þarf að fara í forkeppni fyrir undankeppni EM.

„Við dettum úr þessum styrkleikariðli sem við erum komnir í og það þýðir að við þurfum að fara í alls kyns forkeppnir. Það er alveg hægt að komast á EM aftur en leiðin er töluvert lengri og það eru fleiri ljón á veginum,“ sagði Benedikt Guðmundsson við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Ísland leikur með Portúgal og Belgíu í riðli í 2. umferð forkeppni EM sem hefst í september. Efsta lið riðilsins fer í 32 liða undankeppni EM, hin tvö fara í 3. umferð forkeppninnar þar sem annað tækifæri gefst til þess að komast í undankeppnina.

„Auðvitað veit maður að við erum ekki að fara að verða áskrifendur að lokakeppni EM, það segir sig alveg sjálft, en auðvitað vilum við komast þangað aftur. Við erum að búa til nýtt lið núna, það eru ákveðin kynslóðaskipti í gangi og miklar breytingar, þessi kynslóð sem er búin að koma okkur á tvö stórmót er að segja skilið við þetta.“

„Það eru breytingar á þjálfarateyminu, báðir aðstoðarþjálfararnir hættir, þannig að það eru alls kyns breytingar í gangi.“

„Fyrir svona tveimur, þremur árum hafði ég áhyggjur af því hvað myndi gerast þegar þessi kynslóð segir skilið við þetta. En þessir strákar sem eru að koma upp núna eru hver öðrum hæfileikaríkari þannig að ég veit að við eigum eftir að fara á stórmót aftur,“ sagði Benedikt Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×