Fótbolti

Sumarmessan: „Fótboltinn er að koma á fleygiferð heim“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það fór ekkert á milli mála með hverjum strákarnir í Sumarmessunni héldu í leik Englendinga og Kólumbíu í gærkvöldi. Þeir voru líka kátir í leikslok eins og flestir aðdáendur ensku úrvalsdeildarinnar hér á landi.

Gestir Sumarmessunnar í gærkvöldi voru Gunnar Sigurðsson, betur þekktur sem Gunnar á Völlum, Gunnleifur Gunnleifsson og Jóhannes Karl Guðjónsson. Benedikt Valsson stýrði Sumarmessunni að vanda.

„Ég held að Jói Kalli sé sammála mér að nú er fótboltinn að koma heim,“ sagði Gunnar Sigurðsson og Jóhannes Karl Guðjónsson tók líka undir þetta:

„Hann er að koma alveg á fleygiferð heim. Ég verð að viðurkenna það að ég spáð Englendingum heimsmeistaratitlinum áður en mótið byrjaði,“ sagði Jóhannes Karl.

„Ég er að ég held búinn að gera það síðan 1987,“ skaut Gunnar á Völlum hlæjandi inn í.

„Þetta er svakalega gaman. Þessi þjóð er hálfklikkuð hvað hún fylgist mikið með enska boltanum. Það eru ótrúlega sterkar taugar til þessa enska liðs sem er alveg fáránlegt sérstaklega eftir Þorskastríðið og annað,“ sagði Jóhannes Karl en bætti svo við:

„Að öllu gríni slepptu þá viljum við hafa enska landsliðið áfram í keppninni eins lengi og hægt er,“ sagði Jóhannes Karl.

Það má sjá allt spjall þeirra félaga um enska landsliðið og árangur þess á HM í Rússlandi í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×