Fótbolti

Fyrrum samherjar hjá Man United eru nú andstæðingar í norsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Henning Berg og Ole Gunnar Solskjær fagna titli með Manchester United.
Henning Berg og Ole Gunnar Solskjær fagna titli með Manchester United. Vísir/Getty
Þeir spiluðu saman með stórliði Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á tíunda áratugnum en eru núna orðnir andstæðingar nú þegar þeir nálgast fimmtugsafmælið.

Við erum að tala um norsku knattspyrnugoðsagnirnar Ole Gunnar Solskjær og Henning Berg sem eru 45 ára og 48 ára gamlir í dag.

Henning Berg var í gær ráðinn sem þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Stabæk en þetta er staðfest á heimasíðu félagsins. Ole Gunnar Solskjær hefur þjálfað lið Molde frá 2015 og áður frá 2011 til 2014.





Stabæk er í bullandi fallbaráttu í norsku úrvalsdeildinni og rak spænska þjálfarann Antoni Ordinas í lok júní. Nú er Henning Berg ætlað að tryggja sæti liðsins í deildinni,.

Molde nálgaðist á sama tíma titilbaráttuna með 4-0 stórsigri á toppliði Brann í síðustu umferð. Solskjær hefur tvisvar unnið norsku úrvalsdeildina með Molde en síðast árið 2012.

Þetta er fyrsta starf í Noregi síðan að hann þjálfaði lið Lilleström SK árið 2011. Hann stýrði einnig Lyn frá 2005 til 2008 eða áður en hann færði sig yfir til Lilleström. Frá 2011 hefur hann stýrt liði í Englandi (Blackburn), Póllandi (Legia Varsjá) og Ungverjalandi (Videoton) þar sem hann starfaði síðast.  

„Það er mitt mat að Stabæk hafi í mörg ár gert mikið úr litlu. Þar þora menn að hugsa stórt þótt að félagið sé lítið. Félaginu er vel stjórnað, það er sókndjarft og jákvætt og fer sínar eigin leiðir,“ sagði Henning Berg við heimasíðu Stabæ.

Henning Berg og Ole Gunnar Solskjær spiluðu saman í þrjú tímabil með Manchester United og þar á meðal er 1998-99 tímabilið þegar félagið vann þrefalt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×