Erlent

ESB gefur unglingum Interrail miða til að auka víðsýni

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Interrail nýtur mikilla vinsælda meðal evrópskra ungmenna
Interrail nýtur mikilla vinsælda meðal evrópskra ungmenna Vísir/Instagram
Fimmtán þúsund evrópskir unglingar fá ókeypis Interrail lestarmiða í sumar í boði Evrópusambandsins. Meira en hundrað þúsund unglingar sóttu um miða og því ljóst að fæstum varð að ósk sinni.

ESB ætlar hins vegar að stórauka fjárveitingar til verkefnisins á næstu árum og stefnt er að því að bjóða mörg hundruð þúsund ungmennum að ferðast ókeypis um álfuna sína á hverju ári.

Interrail lestarkerfið gerir ferðalöngum kleift að borga fast gjald fyrir ótakmarkaðar ferðir og sjá þannig eins stóran hluta Evrópu og hægt er að komast yfir á einu sumri.

Þetta er hægt vegna samstarfssamninga meira en 35 mismunandi fyrirtækja sem reka lestarkerfi um alla Evrópu. Ferjur eru einnig hluti af leiðakerfinu.

Til að eiga möguleika á ókeypis miða þarf umsækjandinn að vera átján ára gamall og svara nokkrum spurningum um evrópska menningu og arfleið.

Á heimasíðunni DiscoverEU segir að tilgangurinn sé ekki síst að vinna gegn lýðskrumi og hræðsluáróðri. Unga fólkið geti þarna kynnst af eigin raun hversu mikilvæg opin landamæri og ferðafrelsi séu. Auk þess kynnist þau fjölskrúðugu mannlífi og mismunandi menningu, sem sé öllum holt.

Andstæðingar ESB gagnrýna verkefnið hins vegar harðlega og segja að þarna sé skattfé varið í áróður. Nær væri að fjárfesta í atvinnuuppbyggingu en lestarmiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×