Fótbolti

Fyrsti enski markvörðurinn til að vinna vítakeppni í 22 ár: Bara Falcao kom mér á óvart

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Pickford fagnar vítamarkvörslu sinni.
Jordan Pickford fagnar vítamarkvörslu sinni. Vísir/Getty
Jordan Pickford, markvörður Everton og enska landsliðsins, endaði í gær meira en tuttugu ára bið ensks landsliðsmarkvarðar eftir því að vinna vítakeppni á stórmóti.

Jordan Pickford varði eina spyrnu Kólumbíumanna og önnur spyrna fór síðan í slá og niður. Enska liðið vann vítakeppnina 4-3 og tryggði sér með því leik á móti Svíþjóð í átta liða úrslitum HM í Rússlandi.

Síðastur til vinna vítakeppni var David Seaman, fyrrum markvörður Arsenal, en hann varði eitt víti frá Spánverjum í vítakeppni Englands og Spánar í átta liða úrslitum EM í Englandi 22. júní 1996.





Jordan Pickford var þá aðeins tveggja ára og þriggja mánaða gamall en markvörðurinn er fæddur 7. mars 1994.

Leikmenn enska landsliðsins æfðu vítaspyrnur fyrir úrslitakeppnia og markvörðurinn var einnig búinn að fara mjög vel yfir það hvar leikmenn andstæðinganna voru vanir að skjóta í vítaspyrnum sínum.

„Ég er búinn að vinna mikla undirbúningsvinnu fyrir þessa vítakeppni. Það var bara Falcao sem sparkaði ekki boltanum þangað sem hann var vanur,“ sagði Jordan Pickford.

Radamel Falcao tók fyrstu vítaspyrnu Kólumbíumanna en svo var Jordan Pickford alltaf nær og nær því að verja víti þar til að hann varði fimmtu og síðustu spyrnu Kólumbíumanna.





Jordan Pickford hefur ekki þótt alltof sannfærandi og markvarslan er á blaði yfir veikustu þætti enska landsliðsins á HM í Rússlandi. Pickford hefur hinsvegar unnið sér inn marga aðdáendur með frammistöðunni í vítakeppninni í gær.

Vísir hefur ekki fengið það staðfest en miðað við hvað Gylfi Þór Sigurðsson er duglegur að æfa aukalega þá má búast við því að þeir félagar hafi tekið nokkrar auka skotæfingar saman á æfingasvæði Everton.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×