Erlent

Var haldið föngnum í tvö ár í Noregi

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Noregi.
Frá Noregi. Vísir/Getty
Karlmaður á fimmtugsaldri á að hafa verið haldið föngnum af manni á sjötugsaldri í vesturhluta Upplanda í Noregi um tveggja ára skeið. Frá þessu greinir Oppland Arbeiderblad.

Lögmaður hans segir í samtali við NRK að skjólstæðingur sinn hafi lýst árunum sem „helvíti“ og að hann hafi þurft að þola ofbeldi og hótanir. Erfitt sé að lýsa hvað hafi nákvæmlega átt sér stað, en að þeir hafi á sínum tíma verið félagar.

„Þeir eru ekki úr sömu fjölskyldunni og áttu ekki í sambandi. Þeir hafa lengi þekkst og eru báðir frá þessum slóðum,“ segir Aina Helene Tvengsberg, lögmaður mannsins. Skjólstæðingurinn hafi haft það erfitt og hafi enn, en hann njóti nú aðstoðar fjölskyldu og heilbrigðsstarfsmanna.

Maðurinn á sjötugsaldri var handtekinn af lögreglu 30. júní síðastliðinn og í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Í frétt NRK kemur fram að fjölskylda fórnarlambsins hafi misst allt samband við hann fyrir tveimur árum. Á síðustu árum hefur þó nokkrum sinnum sést til hans, þó ávallt í fylgd eldri mannsins. Fórnarlambið á lengi að hafa strítt við áfengisfíkn og virðist sem að eldri maðurinn hafi haft fullkomna stjórn á honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×