Enski boltinn

Markahæsti leikmaður Kólumbíu að verða liðsfélagi Gylfa?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Yerry Mina
Yerry Mina vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið Everton hefur lagt fram 21 milljón punda tilboð í Yerry Mina, leikmann Barcelona.

Hinn 23 ára gamli Mina sló í gegn með Kólumbíu á HM í Rússlandi. Þrátt fyrir að hefja mótið sem varamaður vann Mina sér sæti í hjarta varnarinnar eftir að hafa ekki komið við sögu í 2-1 tapi gegn Japan í opnunarleiknum.

Mina skoraði í öllum þremur leikjunum sem hann spilaði; og var þar með markahæsti leikmaður liðsins í keppninni. Þá fékk Kólumbía aðeins eitt mark á sig meðan hans naut við í varnarlínunni. Liðið féll svo úr leik í vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitum.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum hefur Mina áhuga á að ganga í raðir Everton en ekki er langt síðan hann var keyptur til Barcelona frá Palmeiras í Brasilíu.

Honum tókst hins vegar ekki að vinna sér sæti í byrjunarliði Barcelona á síðustu leiktíð og vill komast í lið þar sem hann fær öruggt byrjunarliðssæti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×