Erlent

Upptökur bendi til fjöldasjálfsmorðs

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nágrannar fjölskyldunnar eru í sárum vegna málsins.
Nágrannar fjölskyldunnar eru í sárum vegna málsins. Vísir/getty
Indverska lögreglan segir upptökur úr öryggismyndavélum renna stoðum undir þá kenningu að andlát 11 fjölskyldumeðlima í Nýju-Delí hafi ekki borið að með saknæmum hætti.

Greint var frá því fyrr í vikunni að fjölskyldan hafi fundist látin á heimili sínu í borginni, þar af höfðu 10 meðlimir hennar hangið úr loftinu þegar lögreglu bar að garði. Málið hefur, að sögn breska ríkisútvarpsins, vakið mikinn óhug á Indlandi en mörgum spurningum er enn ósvarað.

Til að mynda er ekki vitað með vissu hver aðdragandi málsins var. Indverskir rannsakendur greindu þó frá því í morgun að upptökur úr öryggismyndavélum gefi vísbendingar um fjöldasjálfsmorð. Á upptökunum megi sjá fjölskyldumeðlimi haldandi á stólum og einhvers konar vírum sem notaðir voru til að hengja fólkið upp í rjáfur byggingarinnar. Krufningar hafa leitt í ljós að banamein allra í fjölskyldunni hafi verið henging.

Sjá einnig: Fjölskylda fannst hangandi úr loftinu

Þrátt fyrir upptökurnar hefur lögreglan málið ennþá til rannsóknar og hefur því ekki enn útilokað að um morð hafi verið að ræða. Það að búið hafi verið að kefla fólkið og binda um hendur þess gefi þannig til kynna að einhver hafi aðstoðað við verknaðinn.

Í samtali við breska ríkisútvarpið segir rannsóknarlögreglumaður að unnið sé að því að greina allt að þriggja mánaða gamlar upptökur úr öryggismyndavélum. Myndavélarnar voru í búð fjölskyldunnar, en hún bjó fyrir ofan verslunina.

Skömmu eftir líkfundina var greint frá því að andlátin kynnu að tengjast einhverjum dulrænum eða yfirnáttúrulegum athöfnum. Útkrotuð bréfsnifsi sem fundust í íbúðinni bentu til þess að um væri að ræða fjöldasjálfsmorð í trúarlegum tilgangi. Nú hafa komið upp úr krafsinu 11 dagbækur sem ritaðar voru af yngsta drengnum í fjölskyldunni. Lögreglumenn segja að þar megi greina vísbendingar um að strákurinn hafi talið að sál föður hans hafi tekið sér bólfestu í honum.

Færsla í einni dagbókinni hafi þar að auki gefið sterklega til kynna að fjölskyldan hafi talið að yfirnáttúrulegir kraftar myndu koma þeim til bjargar. Lögreglan áætlar að sú hugmynd kunni að hafa verið leiðarljós fjölskyldunnar, sem svo leiddi til fjöldasjálfsmorðsins.


Tengdar fréttir

Fjölskyldan fannst hangandi úr loftinu

Ellefu fjölskyldumeðlimir fundust látnir í húsi einu í indversku höfuðborginni Nýju-Delí þar af eru tíu þeirra sagðir hafa hangið neðan úr þaki hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×