Erlent

Bandarískur þingmaður sakaður um að láta misnotkun óáreitta

Kjartan Kjartansson skrifar
Jordan (fremstur) hefur verið nefndur sem næsti leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.
Jordan (fremstur) hefur verið nefndur sem næsti leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Vísir/EPA
Þingmaður Repúblikanaflokksins sem talað hefur verið um sem mögulegan leiðtoga þeirra í neðri deild þingsins er sakaður um að hafa vitað af kynferðislegri misnotkun á íþróttamönnum en aðhafast ekkert þegar hann var aðstoðarþjálfari glímuliðs Ríkisháskóla Ohio fyrir hátt í þrjátíu árum.

Að minnsta kosti fimm menn hafa sakað Jim Jordan, fulltrúadeildarþingmann Repúblikanaflokksins, um að hafa látið misnotkun læknis glímuliðsins á allt að þúsund íþróttamanna og nemenda óáreitta þegar hann vann við skólann frá 1986 til 1994. Jordan hefur hafnað ásökununum.

Læknirinn, Richard Strauss, lést árið 2005, en Ríkisháskólinn í Ohio tilkynnti í apríl að hann væri að rannsaka ásakanir um að hann hefði misnotað glímumenn í liðinu frá miðjum 8. áratugnum og langt fram á 10. áratuginn.

Jordan ber því við að hann hafi aldrei vitað af brotum Strauss þar til fyrrverandi nemendur stigu fram í vor. Sumir fyrrverandi nemendur skólans efast um það og segja að Jordan hljóti að hafa vitað af misnotkuninni. Strauss hafi verið þekktur fyrir að baða sig reglulega með nemendum og að snerta þá á óviðeigandi hátt.

Þingmaðurinn hefur jafnframt sett spurningamerki við að ásakanirnar komi fram nú þegar aðeins nokkrir mánuðir eru til þingkosninga. Jordan hefur verið nefndur sem mögulegur næsti forseti fulltrúadeildarinnar.

Donald Trump forseti hefur ennfremur tekið upp hanskann fyrir Jordan og segist alls ekki trúa þeim hafa sett ásakanirnar fram.

„Ég trúi þeim alls ekki, ég trúi honum. Jim Jordan er einn mest framúrskarandi maður sem ég hef hitt frá því ég kom til Washington. Ég trúi honum 100%. Engin spurning í mínum huga. Ég trúi Jim Jordan 100%. Hann er framúrskarandi maður,“ sagði forsetinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×