Erlent

Tveir kafarar fylgja hverjum dreng í kapphlaupi við rigninguna

Kjartan Kjartansson skrifar
Kafarar sérsveitar taílenska sjóhersins birtu þessa mynd af sér áður en þeir héldu niður í hellinn.
Kafarar sérsveitar taílenska sjóhersins birtu þessa mynd af sér áður en þeir héldu niður í hellinn. Vísir/EPA
Úrhellisrigning er nú á hellasvæðinu í Taílandi þar sem tólf drengir og þjálfari þeirra bíða björgunar. Björgunaraðgerðir hófust í morgun og hafa taílensk yfirvöld opinberað áætlun sína um að koma drengjunum út. Tveir kafarar fylgja hverjum dreng en búist er við því að það taki ellefu klukkustundir að koma hverjum og einum þeirra út.

Ákveðið var að ráðast í aðgerðirnar kl. 10 að staðartíma í morgun, kl. 3 að íslenskum tíma, þar sem að vatnshæðin í hellakerfinu er nú sú lægsta sem hún hefur verið frá því að hópurinn varð innlyksa fyrir tveimur vikum. Úrhellisrigning er nú skollin á en yfirvöld óttuðust að hún gæti fljótt fyllt hellana aftur af jafnvel meira vatni en áður. CNN-fréttastöðin segir að spáð sé áframhaldandi úrhelli út vikuna en monsúntímabilið er nú að hefjast á Taílandi. Það stendur fram í október.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að taílensk yfirvöld hafi birt áætlun sína um björgun drengjanna. Þeir fá hver um sig öndunargrímu sem nær yfir allt andlitið og súrefnistank. Tveir kafarar fylgja hverjum og einum og geta þeir fetað sig áfram eftir reipi.

Á þrengsta kafla leiðarinnar þurfa kafararnir og drengirnir hins vegar að taka af sér súrefniskútana og rúlla þeim í gegn. Fréttaritari BBC á staðnum segir að drengjunum verði gefið tækifæri til að stoppa á leiðinni til að safna kröftum og til að hægt sé að meta ástand þeirra.

Sumir drengjanna er ósyndir og enginn þeirra hefur reynslu af köfun. Kafarar hafa reynt að undirbúa þá eftir fremsta megni undanfarna daga.

Búist er við því að gangi allt að óskum gætu fyrsti drengurinn komist upp í fyrsta lagi um kl. 14:00 að íslenskum tíma í dag. Björgunaraðgerðirnar gætu tekið nokkra daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×