Fótbolti

Tæplega 20 milljónir Englendinga horfðu á sína menn vinna Svíþjóð

Einar Sigurvinsson skrifar
Harry Maguire fagnar marki sínu í leiknum í gær.
Harry Maguire fagnar marki sínu í leiknum í gær. Vísir/Getty
Þegar áhorfið var sem mest voru 19,9 milljónir manns sem horfðu á leik Englands og Svíþjóðar á bresku ríkisstöðinni BBC One í gær. England vann leikinn 2-0 og tryggði sér um leið farseðilinn í undanúrslit heimsmeistaramótsins í Rússlandi.

Fyrir utan sjónvarpsáhorf voru 3,8 milljónir sem streymdu útsendingunni á vef BBC og er það met á vefnum.

Að meðaltali horfðu 15,8 milljónir á leikinn frá upphafi til enda en þegar leikar stóðu sem hæst voru 89 prósent þeirra sem höfðu kveikt á sjónvarpi sínu með stillt á leikinn.

Þetta eru þó ekki jafn margir og fylgdust með vítaspyrnukeppni Englands og Kólumbíu, en á hana horfðu 23,6 milljónir.

Þessar tölur komast þó ekki nálægt áhorfi okkar Íslendinga á fyrsta leik heimsmeistaramótsins gegn Argentínu. Í síðustu mínútu uppbótartíma þess leiks höfðu 99,6 prósent þeirra sem höfðu kveikt á sjónvarpinu sínu stillt á leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×