Handbolti

Sveinn Andri fékk mjög óverðskuldað rautt spjald og strákarnir töpuðu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveinn Andri Sveinsson í leik með ÍR.
Sveinn Andri Sveinsson í leik með ÍR. vísir/ernir
Íslenska tuttugu ára landsliðið í handbolta er að undirbúa sig fyrir komandi Evrópumót í Slóveníu seinna í þessum mánuði.

Íslensku strákarnir spiluðu tvo æfingaleiki við heims- og Evrópumeistara Frakka á síðustu tveimur dögum.

Íslenska liðið náði 30-30 jafntefli í fyrri leiknum þar sem ÍR-ingurinn Sveinn Andri Sveinsson fór á kostum og skoraði 10 mörk.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson og Darri Aronsson hvíldu í seinni leiknum eftir að hafa lent í hnjaski í fyrri leiknum.

Seinni leikurinn fór vel af stað og fyrstu 20-25 mínúturnar voru frábærlega spilaðar þar sem strákarnir yfirspiluðu Frakkana segir í frétt á heimasíðu HSÍ.

„Skömmu síðar átti sér stað ótrúlegt atvik sem leiddi meðal annars til að Sveinn Andri Sveinsson fékk mjög óverðskuldað rautt spjald. Í framhaldinu gengu Frakkarnir á lagið og náðu góðri forystu í lok fyrri hálfleiks og lönduðu á endanum öruggum 30-20 sigri,“ segir í frétt á heimasíðu HSÍ.

Haukastrákurinn Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur í seinni leiknum en þessi efnilegi vinstri hornamaður skoraði 12 mörk í leikjunum tveimur.

Mörk Ísland í seinni leiknum (20-30) skoruðu: Orri Freyr Þorkelsson 6, Elliði Snær Viðarsson 4, Sveinn Andri Sveinsson 2, Birgir Steinn Jónsson 2, Hannes Grimm 1, Ágúst Emil Grétarsson 1, Ásmundur Atlason 1, Daníel Griffin 1, Friðrik Hólm 1 og Pétur Árni Hauksson 1.

Mörk Íslands í fyrri leiknum (30-30) skoruðu: Sveinn Andri Sveinsson 10, Orri Freyr Þorkelsson 6, Birgir Már Birgisson 4, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 3, Elliði Snær Viðarsson 3, Daníel Griffin 2 og Pétur Árni Hauksson 2.

Í fréttinni á heimsíðu Handknattleikssambands Íslands taka menn líka saman leikina tvo og segja frammistöðuna þar gefa tilefni til bjartsýni á Evrópumótinu. Bjarni Fritzson er þjálfari U-20 ára landsliðs karla.

„Í heildina er óhætt að segja að leikirnir tveir við Frakkana hafi verið virkilega flottur undirbúningur fyrir EM í Slóveníu sem hefst seinna í mánuðinum og gefur virkilega góð fyrirheit um framhaldið,“ segir í frétt á heimasíðu HSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×