Fótbolti

Gummi Kristjáns minnti á Beckham: „Næsta sem ég veit þá flýgur skórinn minn í átt að honum“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðmundur Kristjánsson, leikmaður FH í Pepsi deild karla, var í skemmtilegu spjalli hjá Tómasi Þór Þórðarsyni og Elvari Geir Magnússyni í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu í dag.

Guðmundur spilaði fyrir Start í Noregi áður en hann snéri til baka til Íslands og gekk til liðs við FH.

„Það voru innanbúðarmál sem gerðu að að verkum að mig langaði ekki að vera áfram. Kom upp smá drama síðasta árið,“ sagði Guðmundur þegar spjallið barst að atvinnumennskunni.

„Skaphundurinn sem ég get verið stundum, eftir tapleik í bikarnum þá lenti ég í smá útistöðum við framkvæmdarstjórann. Það voru skór sem flugu og svona, það er saga fyrir betri tíma.“

Tómas og Elvar vildu endilega fá meira út úr Guðmundi um hvað hefði gerst.

„Framkvædarstjórinn kom þarna og var að drulla yfir okkur. Ég ætlaði að standa upp fyrir liðsfélagana og verja þá en þá er mér bara blótað í sand og ösku af honum, ég sá bara rautt og næsta sem ég veit þá flýgur skórinn minn í átt að honum.“

„Ég hafði allavega vit af því að stýra skónum framhjá honum.“

Guðmundur sagði framkvæmdarstjórann seinna hafa beðist afsökunar á atvikinu.

Allt spjallið og þáttinn í heildina má heyra hér í fréttinni þar sem meðal annars er rætt við Gunnar Jarl Jónsson um leikina í Pepsi deildinni sem fram undan eru, Davíð Snorri Jónasson ræðir HM í Rússlandi og margt fleira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×