Erlent

Rottur rústuðu hraðbanka

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tjónið nemur um tveimur milljónum króna.
Tjónið nemur um tveimur milljónum króna. HT
Viðgerðarmenn sem sendir voru að biluðum hraðbanka á Indlandi hrukku í kút þegar þeir litu inn í hann.

Þar mátt sjá um 1.2 milljónir rúpía, næstum 2 milljónir króna, sem búið var að tæta upp í ótal lítil snifsi. Sökudólgarnir? Rottur.

Myndir af hraðbankanum fóru sem eldur í sinu um indverska netheima. Þær má sjá hér að neðan en þar ber einnig að líta eina dauða rottu, sem liggur á snifsahrúgunni.

Í samtali við þarlenda miðla segja lögreglumenn að líklegast þyki að rotturnar hafi skriðið inn í hraðbankann í gegnum gat fyrir leiðslur. Hraðbankinn hafði verið bilaður í um 12 daga áður en ákveðið var að kalla eftir viðgerðarmönnum.

Þrátt fyrir að rotturnar hafi náð að valda fyrrnefndu tjóni virðast þær ekki hafa haft óendanlega matarlyst. Þannig snertu þær ekki á rúmlega 1.7 milljón rúpíum sem eftir voru í kassanum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×