Lífið

Rúrik kominn með milljón fylgjendur á Instagram í krafti einstakrar fegurðar

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Rúrik er fjallmyndarlegur en er með 300 þúsund færri fylgjendur en Fjallið þegar þetta er skrifað
Rúrik er fjallmyndarlegur en er með 300 þúsund færri fylgjendur en Fjallið þegar þetta er skrifað Vísir/Instagram
Landsliðsmaðurinn snoppufríði Rúrik Gíslason er kominn með eina milljón fylgjenda á samfélagsmiðlinum Instagram. Fylgjendum hans hefur fjölgað á ógnarhraða síðan hann kom inn á sem varamaður í fyrsta leik Íslands á HM í knattspyrnu fyrir viku síðan.

Það virðast þó síður vera knattspyrnuhæfileikar hans en undurfögur ásýnd sem vekur athygli heimsbyggðarinnar. Hefur verið rætt um að Rúrik hefji fyrirsætuferil eftir mótið með aðstoð vinar síns Egils Einarsson, sem er betur þekktur sem Gillzenegger.

Sjálfur hefur Egill ekki undan að svara Instagram skilaboðum eftir að hann gantaðist með að hann væri umboðsmaður Rúriks í viðtali á dögunum.

Það var löngu orðið ljóst að væri bara tímaspursmál hvenær Rúrik myndi brjóta milljón-fylgjenda múrinn. Aðeins fjórir Íslendingar hafa gert það á undan honum: Björk Guðmundsdóttir tónlistarkona, Hafþór Júlíus Björnsson kraftlyftingamaður og Crossfit meistararnir Sara Sigmundsdóttir og Katrín Davíðsdóttir.

Hafþór er með flesta fylgjendur allra Íslendinga eða 1.3 milljónir. Ef Rúrik ætlar sér á toppinn í Instagram heiminum gætu strákarnir þurft að framlengja veru sína á mótinu með góðum sigri gegn Króatíu og smá heppni.

Það myndi ekki einungis koma sér vel fyrir Rúrik í kapphlaupinu um fylgjendur, heldur sennilega gleðja nokkur önnur íslensk hjörtu í leiðinni.

Þeim, sem vilja virða alla dýrðina fyrir sér með eigin augum, er bent á að bætast í fylgjendahópinn hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×