Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - FH 0-1 | FH-ingar komnir í undanúrslit

Einar Sigurvinsson skrifar
FH-ingar fagna sigri fyrr í sumar.
FH-ingar fagna sigri fyrr í sumar. vísir/bára
FH tryggði sér sæti í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu þegar liðið sigraði ÍA í kvöld. Leikurinn fór fram á Norðurálsvellinum á Akranesi og lauk með 1-0 sigri FH-inga.

Það tók FH ekki nema tvær mínútur að komast yfir í leiknum. Atli Guðnason kom boltanum fyrir markið þar sem Brandur Olsen var einn á auðum sjó og skoraði af öryggi. Draumabyrjun fyrir FH-inga og ljóst að róðurinn yrði erfiður fyrir heimamenn.

Hvasst var á Akranesi í kvöld. FH hafði vindinn með sér í fyrri hálfleik og sóttu stíft að marki Skagamanna. Þeim tókst að skapa sér fjölmörg marktækifæri en í markið vildi boltinn ekki. Staðan því 1-0 í hálfleik, sem var í raun ótrúlegt miðað við gang leiksins.

Allt annað var að sjá lið ÍA í síðari hálfleik. Þeir sóttu stíft að marki FH-inga og höfðu því liðin í raun skipt um hlutverk. Heimamenn héldu boltanum betur og áttu margar góðar sóknir en með þéttum varnarleik tókst FH-ingum að halda marki sínu og vinna 1-0 sigur.

Af hverju vann FH leikinn?

Öflugur varnarleikur FH-inga kláraði þennan leik í kvöld. FH var miklu betra lið vallarins í fyrri hálfleik og hefði auðveldlega getað gert út um leikinn í hálfleik. Í síðari hálfleik voru Skagamenn öflugri. Þeir héldu boltanum betur en þéttur varnarleikur FH-inga sá til þess að þeim gekk illa að skapa sér hættuleg færi.

Hverjir stóðu upp úr?

Maður leiksins var Guðmundur Kristjánsson, en hann gerði allt rétt í vörn FH og er sannarlega farinn að finna sig í þessari nýju stöðu.

Albert Hafsteinsson var einnig frábær í liði ÍA. Hann var allt í öllu á miðju Skagamanna, vann boltann og kom með hættulegar sendingar inn á framherjana.

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik gekk FH-ingum illa að klára færin sín. En hjá heimamönnum vantaði herslumuninn til þess að klára sóknirnar, en þeir áttu fjölmargar hættulegar sóknir sem enduðu hvorki á skoti né almennilegu marktækifæri.

Hvað gerist næst?

Þann 2. júlí í sannkallaður stórleikur í Hafnarfirði þegar FH-ingar taka á móti Stjörnunni í Pepsi-deildinni.

Næsti leikur Skagamanna er einnig toppslagur í Inkasso-deildinni en ÍA mæti Víkingi Ólafsvík þann 29. júní.

Jóhannes Karl: Var bjartsýnn að við myndum ná að jafna
Jóhannes Karl.vísir/anton
„Mér fannst við í raun og vera hafa yfirburði í öllum síðari hálfleiknum. Við héldum boltanum ágætlega og náðum að færa hann vel á milli kanta. Við náum að skapa okkur nokkur ágætis færi og komumst nokkrum sinnum í góða stöðu sem við náum ekki að skapa hættuleg færi úr,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA í leikslok.

„Þeir stigu ansi mikið til baka og það vantaði að ná að opna þá aðeins betur. En ég er svekktur að hafa ekki náð að jafna leikinn.“

Skagamenn sóttu af krafti í síðari hálfleik en það vantaði herslumuninn upp á að liðið næði að skapa sér almennileg marktækifæri.

„Ég held að við hefðum þurft aðeins meiri þolinmæði. Að ná að færa boltann aðeins meira og ekki að leita alltaf að úrslitasendingunni. En ég held líka að það hafi aðeins vantað upp á trúna. Að strákarnir hefðu trú á því að við gætum komið til baka á móti jafn öflugu liði og FH er. En eins og seinni hálfleikurinn spilaðist hefðum við auðveldlega getað það. “

Heilt yfir var Jóhannes Karl þó ánægður með frammistöðu sinna manna.

„Ég var nokkuð bjartsýnn á að við myndum ná að jafna. Miðið við það hvernig holningin var á FH-liðinu þegar leið á leikinn, þá virkuðu þeir þreyttir. Mér fannst við hafa yfirhöndina þá.“

Jóhannes vill þó meina að það hafi vantað meiri trú á verkefninu hjá sínum mönnum í kvöld.

„Kannski er erfitt fyrir menn að trúa því að við getum unnið FH. Að við getum unnið eitt af bestu liðunum á Íslandi. Það er eitthvað sem kemur. Eitt af því sem við þurfum að bæta hjá okkur er trú á því sem við erum að gera. Strákarnir þurfa að hafa trú á sér sem einstaklingar og svo þarf hópurinn í heild seinni að hafa meiri trú á því sem við erum að gera.“

„Við erum á flottri leið og erum að bæta okkur statt og stöðugt,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.

Ólafur: Vill auðvitað sjá betri nýtingu
Ólafur Kristjánsson.vísir/bára
„Þetta var bara fínn sigur og hressandi. Það var hvasst, þungur völlur og Halli og Laddi að skemmta í stúkunni. Það var allt eins og það átti að vera,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH í leikslok.

Á heildina litið var Ólafur ánægður með sína menn í dag.

„Frábær byrjun. Við fáum í fyrri hálfleik aragrúa af færum og skot í stöng. Þá vill maður auðvitað sjá betri nýtingu, en þetta er bara eitt skref í einu.“

Töluverður munur var á fyrri og seinni hálfleik leiksins, en leikmenn ÍA pressuðu stíft á FH í seinni hálfleiknum.

„Skaginn er með kröftugt lið og þeir spiluðu svolítið beinskeytt á okkur. Í seinni hálfleik vorum við ekki að gera eins og í fyrri hálfleik, að taka boltann niður og spila í gegnum pressuna hjá þeim. Það varð myndin af leiknum.“

„Þeir voru meira með boltann. Við lögðum okkur aðeins til baka og ætluðum að ná skyndisóknunum. Sem við gerðum, en náðum ekki þessu öðru marki.“

Næsta leikur FH er gegn Stjörnunni í Pepsi-deildinni og á sá leikur allan hug Ólafs.

„Flott að fá næsta leik og að vera með. En það er langt þangað til við spilum næst í bikarnum. Fókusinn er bara á deildinni,“ sagði Ólafur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira