Erlent

Fyrr­verandi fram­­kvæmda­­stjóra NATO neitað um endur­nýjun á raf­rænni ferða­heimild til Banda­ríkjanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Javier Solana.
Javier Solana. vísir/getty
Bandarísk yfirvöld hafa meinað Javier Solana, fyrrverandi framkvæmdastjóra NATO og fyrrverandi utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, að koma til Bandaríkjanna á rafrænni ferðaheimild vegna ferðar sem hann fór í til Írans árið 2013. Solana var einn af lykilmönnunum í samningaviðræðum við Írani um kjarnorkuáætlun þeirra.

Solana greindi frá því í dag að endurnýjun á rafrænni ferðaheimild hans til Bandaríkjanna, svokölluð ESTA-heimild sem Íslendingar kannast við, hefði verið hafnað í fyrsta skipti. Hann kvaðst ætla að sækja um vegabréfsáritun í staðinn en það ferli er töluvert flóknara en ESTA-umsóknarferlið.

Solana er 75 ára gamall og spænskur ríkisborgari. Hann segist telja að málið hafi frekar eitthvað með skrifræði að gera heldur en pólitík.

Árið 2016, þegar Barack Obama var enn við völd, voru sett hert skilyrði fyrir því að hleypa fólki sem ferðast hafði til Írans, Íraks, Sudan eða Sýrlands til Bandaríkjanna á rafrænni ferðaheimild.

Í staðinn þurfa ferðalangar að sækja um vegabréfsáritun en að því er fram kemur í frétt New York Times geta þeir sem ferðast hafa til Írans sem blaðamenn, hjálparstarfsmenn eða fulltrúar ríkisstjórnar fengið rafræna ferðaheimild til Bandaríkjanna.

 

Solana segist síðast hafa ferðast til Íran árið 2013 þegar hann var viðstaddur athöfn þar sem Hassan Rouhani var settur í embætti forseta. Solana var þá ekki fulltrúi neinnar ríkisstjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×