Lífið

Akademían býður þúsund manns að gerast meðlimir í von um aukna fjölbreytni

Sylvía Hall skrifar
Grínistinn Tiffany Haddish er á meðal þeirra sem fékk boð í akademíuna.
Grínistinn Tiffany Haddish er á meðal þeirra sem fékk boð í akademíuna. Vísir/Getty
Kvikmyndaakademían, sem stendur fyrir afhendingu Óskarsverðlaunanna, hefur boðið tæplega þúsund manns frá 59 löndum að gerast meðlimir. Þetta kemur í kjölfar nokkurra ára gagnrýni á akademíuna, en hvítir karlmenn hafa lengi verið í miklum meirihluta innan hennar.

Akademían bauð 928 einstaklingum í kvikmyndaiðnaðinum að gerast meðlimir akademíunnar í von um að auka fjölbreytni innan hennar, en gangist allir við boðinu mun hlutdeild kvenna fara úr 28 prósentum í 31 og hlutfall þeirra sem eru af hvítum uppruna minnka um 3 prósent. Þá yrði heildarfjöldi meðlima rúmlega sjö þúsund.

Meðal þeirra sem fengu boð um að ganga til liðs við akademíuna voru grínistinn og „Girls Trip“-stjarnan Tiffany Haddish og uppistandarinn Dave Chappelle.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem akademían bregst við gagnrýni um einsleitni, en árið 2016 gáfu þau út loforð um að tvöfalda hlutdeild kvenna og minnihlutahópa innan akademíunnar fyrir árið 2020.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×