Erlent

New York ríki höfðar mál gegn Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti
Donald Trump Bandaríkjaforseti Vísir/AFP
New York ríki í Bandaríkjunum hefur höfðað mál gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og þremur elstu börnum hans vegna „ólöglegs athæfis“ í tengslum við góðgerðarsamtök Trump. Washington Post greinir frá.

Í stefnunni er því haldið fram að Trump og börn hans hafi reglulega misnotað samtökin til þess að greiða skuldir fyrirtækja Trump, notað fé samtakanna til þess að standsetja golfvöll og í tengslum við forsetaframbið Trumnp árið 2016.

Fer ríkið fram á það að góðgerðarsamtökin, Donald J. Trump Foundation, verði leyst upp, eignum samtakanna verði dreift til annarra góðgerðarasamtaka og að Trump greiði 2,8 milljónir dollara í skaðabætur og sekt.

Rannsókn New York ríkis hefur staðið yfir í tæplega tvö ár og hófst hún eftir umfjöllun Washington Post.

Segir í stefnunni að Trump hafi þverbrotið lög sem gilda um skattfrelsi góðgerðarsamtaka, þá sérstaklega þau um að fjármunir góðgerðarsamtaka séu nýttir til almannaheilla, en ekki til persónulegs hagnaðar stofnenda þeirra.

Trump hefur verið forseti samtakanna frá stofnun þeirra árið 1987. Áður en hann tók við embætti forseta lofaði hann því að leggja samtökin niður, en sökum þess að rannsókn ríkisins á þeim stóði yfir gat hann það ekki.

Þrjú elstu börn Trump eru einnig nefnd í stefnunni, þau Donald Trump yngri, Ivanka Trump og Eric Trump. Eru þau stjórnarmeðlimir í samtökunum en stjórn samtakanna hefur ekki komið saman frá árinu 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×