Innlent

Aldrei fleiri hraðakstursbrot frá því samræmdar skráningar hófust

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
3.856 umferðarlagabrot, að hraðamyndavélum undanskildum, voru skráð í maí.
3.856 umferðarlagabrot, að hraðamyndavélum undanskildum, voru skráð í maí. Vísir/Eyþór
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bárust 740 tilkynningar um hegningarlagabrot í maímánuði sem er lítillega meira en í apríl. Ökumenn virtust hafa slegið umdeilt met í maí vegna þess að aldrei fyrr hafa verið skráð jafn mörg hraðakstursbrot og í mánuðinum. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir maímánuð 2018.

3.856 umferðarlagabrot, að hraðamyndavélum undanskildum, voru skráð í maí. Skráðum umferðarlagabrotum fjölgaði umtalsvert á milli ára. Fjölgunin helgast af fleiri tilkynningum um hraðastursbrot en rúmlega 3.000 slík brot voru skráð í mánuðinum. ekki hafa verið skráð jafn mörg hraðakstursbrot í einum mánuði frá því samræmdar skráningar hófust hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 1999.

Í maí bárust 97 tilkynningar um innbrot til lögreglu og fjölgar lítillega á milli mánaða. Fjöldi slíkra tilkynninga fjölgaði miðað við síðustu tólf mánuði á undan auk þess sem 12% fleiri tilkynningar um innbrot bárust að meðaltali það sem af er ári miðað við sama tímabil síðastliðin þrjú ár á undan.

Í síðasta mánuði voru skráðar 103 tilkynningar um ofbeldisbrot sem þýðir að þeim hafi fækkað lítillega á milli mánaða. Skráðum ofbeldisbrotum fækkaði auk þess miðað við síðustu sex mánuði á undan. Það sem af er ári hafa borist um 12% fleiri tilkynningar um ofbeldisbrot en bárust að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár á undan.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust alls 15 tilkynningar um kynferðisbrot sem áttu sér stað í maí. Tilkynningunum hefur fækkað miðað við síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan en fjölgað það sem af er ári um 21% miðað við meðaltal sama tímabils síðastliðin þrjú ár á undan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×