Fótbolti

Messi skaut oftar á markið en okkar menn til samans en skoraði ekki

Kolbeinn Tumi Daðason á Spartak-leikvanginum skrifar
Lionel Messi svekktur í leikslok. Hann var líklega meira með boltann en íslenska landsliðið til samans en tókst ekki að skora.
Lionel Messi svekktur í leikslok. Hann var líklega meira með boltann en íslenska landsliðið til samans en tókst ekki að skora. Vísir/Getty
Það er áhugavert að gera upp magnað jafntefli Íslands við Argentínu með því að skoða opinbera tölfræði FIFA eftir leik. Þar kemur margt áhugavert í ljós fyrir þá sem hafa áhuga á að pæla í tölunum. 

Argentína var með boltann 73% í leiknum en okkar menn 27%. Íslenska liðið var með boltann í 17 mínútur en Argentína 45.

Heimsmeistararnir tvöföldu skutu 26 sinnum á markið og hittu sjö sinnum. Íslenska liðið skaut níu sinnum og hitti þrisvar á markið, eða jafnoft og Lionel Messi. Töframaðurinn örvfætti lét vaða ellefu sinnum en tókst ekki að skora. Ekki einu sinni úr víti sem Hannes Þór Halldórsson varði.

Íslendingar brutu 15 sinnum af sér en Argentínumenn 10 sinnum. Enginn fékk gult spjald í leiknum. Javier Mascherano var brotakóngur leiksins en sex sinnum var dæmd aukaspyrna á hann. Birkir Bjarnason braut oftast af sér í íslenska liðinu eða fjórum sinnum. 

Argentína fékk 10 hornspyrnur á móti tveimur hjá Íslandi. Þrisvar skutu Argentínumenn úr aukaspyrnum en Íslendingar aldrei.

Að lokum, Ísland skoraði eitt mark og Argentína eitt. Liðin fá eitt stig út úr leiknum. Eitthvað sem Argentínumenn hata en Íslendingar elska.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×