Fótbolti

Kominn á heimaslóðir til þess að elda fyrir strákana okkar

Henry Birgir Gunnarsson í Kabardinka skrifar
Rússinn Kirill Dom Ter-Martirosov er í lykilhlutverki hjá landsliðinu enda annar af kokkum liðsins. Örlögin hafa hagað því svo til að hann er með íslenska landsliðinu steinsnar frá sínum fæðingarstað.

Kirill er fæddur og uppalinn í Krasnodar sem er aðeins í rúmlega 100 kílómetra fjarlægð frá þeim stað þar sem íslenska liðið er með sínar búðir. Þar búa afi hans og amma sem og fleiri ættmenni.

„Þetta er mjög sérstakt. Ég bjóst aldrei við því er ég var lítill að ég myndi enda hérna á HM með Íslandi og það á mínu heimasvæði. Þetta er mjög sérstakt og skemmtilegt," segir Kirill en hann var þá í enn einni verslunarferðinni enda þurfa strákarnir að borða mikið.

„Ég flutti til Íslands ellefu ára gamall. Foreldrar mínir ákváðu að prófa þetta og drógu mig með. Okkur líður mjög vel þar og erum ekki að spá í að fara aftur heim."

Kirill segir að það sé algjört ævintýri fyrir sig að fá að vera með liðinu í Rússlandi og hann reynir að njóta hverrar stundar.

„Ég get ekki lýst þessu með orðum. Þetta er mjög spes tilviljun að ég sé til staðar, sé vinur hans Hinna, sé líka kokkur. Það er mjög gaman að þessu."

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×