Enski boltinn

Watford og Everton rífast enn um Silva

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Marco Silva.
Marco Silva. Mynd/Twitter/@Everton
Everton tilkynnti Marco Silva sem nýjan knattspyrnustjóra félagsins á fimmtudag. Deilur félagsins við fyrrum yfirmenn Silva hjá Watford eru þó enn óleystar.

Deilur félaganna hafa staðið yfir í fimm mánuði og kvartaði Watford formlega til ensku úrvalsdeildarinnar í vor yfir hegðun forráðamanna Everton fyrr á tímabilinu. Liðin hafa nú þegar átt fund með lögmönnum til þess að reyna að leysa deilurnar án árangurs og er annar fundur á dagskrá seinna í mánuðinum.

Everton sóttist eftir því að ræða við Silva undir lok síðasta árs þegar Ronald Koeman var rekinn frá félaginu. Watford leyfði það hins vegar ekki þrátt fyrir áhuga stjórans á því að færa sig til Liverpool borgar. Eftir frábæra byrjun á tímabilinu hrundi gengi Watford og Silva var rekinn í janúar eftir aðeins einn sigur í 11 leikjum. Watford telur Everton bera ábyrgð á hrakförunum.

Everton telur sig hins vegar hafa farið eftir öllum lögum og reglum í samskiptum sínum við Watford og Silva.

Þar sem Everton neitar að axla ábyrgðar í málinu er mjög ólíklegt að deilufundir muni leiða til úrlausnar í málinu. Forráðamenn deildarinnar munu því líklega þurfa að dæma í málinu þrátt fyrir vilja þeirra til þess að félög deildarinnar leysi sín ágreiningsmál sín á milli. Líklegasta úrlausnin í málinu er talin vera sú að Everton verði dæmt skaðabótaskilt.


Tengdar fréttir

Watford enn brjálað út í Everton vegna Silva

Watford hefur gert formlega kvörtun til forráðamanna ensku úrvalsdeildarinnar yfir Everton og tilraunum bláklæddra til þess að stela knattspyrnustjóranum Marco Silva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×