Körfubolti

Hildur spilar áfram á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir, til vinstri,  með Berglindi Gunnarsdóttur í landsliðsverkefni.
Hildur Björg Kjartansdóttir, til vinstri, með Berglindi Gunnarsdóttur í landsliðsverkefni. Mynd/Instagram
Íslenski landsliðsmiðherjinn Hildur Björg Kjartansdóttir hefur samið við spænska félagið Celta de Vigo Baloncesto og mun því spila annað tímabil á Spáni.

Celta de Vigo Baloncesto var einum leik frá því að vinna sér sæti í spænsku A-deildinni á síðustu leiktíð.

Hildur segir frá þessu á fésbókinni með orðunum: „Það er gott að vera á Spáni, næsta skref er ákveðið. Er búin að semja við Celta de Vigo Baloncesto og er spennt að spila með þeim næsta tímabil!“

Hildur spilaði með Leganés í spænsku b-deildinni á síðustu leiktíð og var þá með 11,5 stig og 6,5 fráköst að meðaltali í leik. Hún hitti úr 48 prósent skota sinna þar af 40 prósent skota sinna fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hildur er algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu og hefur verið byrjunarliðskona í landsliðinu undanfarin ár. Í undankeppni EM 2019 er Hildur með 12,5 stig og 7,8 fráköst að meðaltali í fyrstu fjórum leikjum íslenska landsliðsins.

Hún er uppalinn hjá Snæfelli og varð Íslandsmeistari með liðinu áður en hún fór út í nám til Bandaríkjanna. Hildur var í þrjú ár í Texas–Rio Grande Valley en útskrifaðist fyrir ári síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×