Innlent

Útlendingastofnun hefur hjónabandsmálið til skoðunar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hæstiréttur sneri við dómi héraðsdóms.
Hæstiréttur sneri við dómi héraðsdóms. Vísir/GVA
Mál þroskaskertrar konu og manns, sem virtist aðeins hafa viljað giftast henni til að fá dvalarleyfi á Íslandi, er til skoðunar hjá Útlendingastofnun, að því er fram kemur í skriflegu svari frá upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar.

Greint var frá málinu í Fréttablaðinu í morgun en maðurinn og konan giftu sig árið 2016 og höfðu þá aðeins þekkst í um tvo mánuði. Hæstiréttur ógilti hjónabandið í gær en maðurinn neitar því að dvalarleyfið sé eina ástæðan fyrir því að hann vildi giftast konunni.

Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, sagði í samtali við Vísi í dag að almennt sé það svo að hafi dvalarleyfi verið veitt á grundvelli hjúskapar þá sé hjúskapurinn forsenda leyfisins. Verði hjúskapurinn ógildur eða ljúki með skilnaði eru forsendur fyrir dvalarleyfi ekki lengur til staðar.

Þórhildur gat þó ekki gefið upplýsingar um það hvort manninum hefði verið veitt dvalarleyfi til að byrja með en þegar hann giftist konunni hafði umsókn hans um hæli hér á landi verið synjað.

Í málinu lágu jafnframt fyrir skýrslur sérfræðinga um andlegt ástand konunnar en þar segir meðal annars að hugtakaskilningur hennar sé á við sex til átta ára barn og skilningur á félagslegum aðstæðum á við sex ára barn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×