Viðskipti innlent

Nýir álagningarseðlar aðgengilegir á morgun

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ingvar J. Rögnvaldsson settur ríkisskattstjóri segir að nýir rafrænir álagningarseðlar veiti mun betri og ítarlegri upplýsingar með skjótum hætti en hafa verið aðgengilegar til þessa.
Ingvar J. Rögnvaldsson settur ríkisskattstjóri segir að nýir rafrænir álagningarseðlar veiti mun betri og ítarlegri upplýsingar með skjótum hætti en hafa verið aðgengilegar til þessa. Vísir/Egill Aðalsteinsson
Nýir og endurbættir álagningarseðlar ríkisskattstjóra verða aðgengilegir í rafrænu pósthólfi á Ísland.is á morgun. Aðgangur að seðlunum þar og ný útgáfa þeirra er liður í bættri rafrænni þjónustu ríkis og sveitarfélaga.

Álagningarseðlarnir vegna tekna síðasta árs eru birtir mun fyrr en venjulega. Lengi vel voru álagningarseðlar ekki aðgengilegir fyrr en 1. ágúst. Á árunum 2016 og 2017 voru þeir aðgengilegir í lok júní eða 29. júní nánar tiltekið en á þessu ári er birtingu þeirra flýtt um mánuð og ættu skattgreiðendur að geta nálgast þá í pósthólfi á Ísland.is strax á morgun, 31. maí.

„Við sjáum fyrst og fremst fyir okkur bætta þjónustu með þessum nýju rafrænu seðlum því þetta myndræna form lýsir miklu betur og veitir miklu betri upplýsingar en við gætum veitt símleiðis eða ef fólk kæmi til okkar. Bæði það að setja þetta fram á svona rafrænu formi, þannig að notandinn getur valið um að kafa ofan í sinn álagningarseðil, er betri þjónusta og mun líka minnka álagið á okkur. Þótt við séum með þjónustuverið og bakvaktir þá höfum við væntingar um að þetta muni draga það mikið úr ákalli eftir skýringum að það gæti minnkað álagið um 75-90 prósent. Ef fólk hefur þolinmæði til að notfæra sér þær skýringar og þá möguleika sem þarna eru,“ segir Ingvar J. Rögnvaldsson settur ríkisskattstjóri.

Ingvar segir að framsetningin bjóði upp á að skattgreiðendur geti nálgast allar þær upplýsingar og skýringar sem þeir þurfi á að halda á skjótan og einfaldan máta inni í þessu rafræna formi. 

Sjá má sýnishorn af nýjum rafrænum álagningarseðlum í myndskeiði með frétt en þar má líka nálgast upplýsingar um endurbætur á rafrænni þjónustu ríkis og sveitarfélaga inni á Ísland.is 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×