Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - KR 1-0 | Oliver skaut Blikum áfram

Böðvar Sigurbjörnsson skrifar
Blikar hafa fagnað oft í sumar.
Blikar hafa fagnað oft í sumar. vísir/bára
Breiðablik og KR mættust í kvöld á Kópavogsvelli í 16-liða úrslitum Mjólkurbikar karla í knattspyrnu. KR-ingar hafa oftast allra liða lyft bikarnum eða alls 14 sinnum, síðast árið 2014 þegar Rúnar Kristinsson var síðast í brúnni hjá liðinu. Blikar hafa hins vegar aðeins einu sinni lyft bikarnum, það gerðu þeir árið 2009 eftir sigur á Fram í vítaspyrnukeppni.

Sagan og hefðin í bikarnum var því öll á bandi KR í leiknum í kvöld en það átti þó ekki eftir að hjálpa liðinu neitt að þessu sinni. Blikar tóku strax öll völd á vellinum og voru hættulegri aðilinn frá upphafi.

Það þurfti ekki að bíða lengi eftir marki því á fjórðu mínútu leiksins skoraði Oliver Sigurjónsson fyrsta og eina mark leiksins með góðu skoti utan teigs sem Sindri Snær Jensson markmaður KR náði ekki að verja. Blikar fengu fjölmörg færi til að bæta við öðru marki í fyrri hálfleik en Sindri Snær Jensson markmaður KR stóð vaktina vel og kom í veg fyrir að liðið væri tveimur eða jafnvel þremur mörkum undir í hálfleik. Undir lok fyrri hálfleiksins meiddist Sindri Snær og þurfti að fara af velli, í hans stað koma Beitir Ólafsson.

Í seinni hálfleik var svipað upp á teningnum. Blikar voru hættulegri en sóknaraðgerðir KR liðsins hægfara og fyrirsjáanlegar. Um miðbik síðari hálfleiks versnaði staðan svo til muna fyrir gestina í KR þegar Arnór Sveinn Aðalsteinsson fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Rúnar Kristinsson þjálfari KR gerði hvað hann gat til að snúa taflinu við og sendi á vettvang þá Atla Sigurjónsson og Pablo Punyed sem tóks að hleypa örlitlu lífi í daufa KR-inga. Þrátt fyrir þetta voru Blikar ávalt með leikinn í hendi sér og líklegri til að bæta við mörkum. Sveinn Aron Guðjohnsen, sem komið hafði inná sem varamaður, komst næst því en Beitir Ólafsson varði vel frá honum.

Þegar rétt tæplega 80 mínútur voru komnar á vallarklukkuna sló þögn á áhorfendur á Kópavogsvellinum þegar Jonathan Kvein Hendrickx lá eftir í grasinu fjarri boltanum. Um tíma var óttast að eitthvað alvarlegt hefði gerst en eftir nokkra stund var hann borinn af velli og merki gefin um að í lagi væri með kappann.

Það sem eftir lifði leiks reyndu KR-ingar allt hvað þeir gátu að jafna leikinn, bæði Atli Sigurjónsson og Bjerregaard fengu til þessi ágætis færi en vörn Blika með hinn reynda Gunnleif í markinu sá við þeim. Það fór því svo að lokum að Blikar sigruðu verðskuldað 1-0 og eru komnir í 8-liða úrslit.

Afhverju vann Breiðablik?

Blikar byrjuðu leikinn af krafti og litu aldrei til baka. Hefðu réttilega átt að bæta við fleiri mörkum og fengu til þess fjölmörg færi. Ef ekki hefði verið fyrir góðan leik markmanna KR hefði sigur Blika verið mun stærri.

Hverjir stóðu uppúr?

Oliver Sigurjónsson og hinn ungi Kolbeinn Þórðarson voru feikilega öflugir í annars jöfnu og góðu liði Breiðabliks.

Hvað gekk illa?

KR liðinu gekk illa í þessum leik á flestum sviðum knattspyrnunnar. Sóknarleikur liðsins var afar hægur og fyrirsjáanlegur. Liðið virkaði hreinlega þreytt og gjörólíkir sjálfum sér frá því í leiknum á móti KA í síðustu umferð Pepsi deildarinnar.

Hvað gerist næst?

Blikar verða í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitum á meðan lið KR er dottið út úr bikarnum þetta árið.

Pálmi Rafn: Vorum skítlélegir

Fyrirliði KR-inga, Pálmi Rafn Pálmason, var vonum ósáttur að leik loknum. 

„Við náðum okkur aldrei í gang, við vorum bara skítlélegir hérna í kvöld“

Hann var mjög svekktur með hvernig liðið mætti til leiks. „Þetta er bikar og ef þú ætlar ekki að gefa þig allan í bikarleiki, þá getur þú bara gleymt þessu,“ sagði Pálmi Rafn Pálmason.



Gústi Gylfa: Áttum þetta skilið

Þjálfari Blika, Ágúst Gylfason, var að vonum ánægður að leik loknum. 

„Við spiluðum frábærlega í dag og áttum þetta skilið. Þeir áttu varla skot á markið í leiknum og þetta bara leit nokkuð vel út í dag, við komnir í 8 líða úrslitin og það var markmiðið.“

Ágúst gerði nokkrar breytingar á liði sínu og gaf ungum leikönnum séns í kvöld og var ánægður með það hvernig þeir komu inn í liðið.

„Já, gríðarlega ánægður með þá, þeir komu sterkt inní þetta og hlupu úr sér lungum hérna og stóðu sig frábærlega vel. Spilið var gott hjá okkur alveg frá byrjun leiks og alveg til enda, már fannst og stjórna leiknum eins og við vildum.“

Aðspurðu um óska mótherja í næstu umferð sagðist Ágúst ekki eiga þá til en vonaðist eftir því að fá heimaleik enda stemmning á Kópavogsvellinum góð í kvöld. 

Rúnar: Áttum aldrei séns

Rúnar Kristinsson þjálfari KR sagði lið sitt einfaldlega hafa verið slakt í kvöld.

„Þetta var bara skelfilegur leikur hjá okkur, frá fyrstu til síðustu mínútu. Reyndum aðeins að klóra í bakkann í síðari hálfleik en það var ekkert skárra, síðan misstum við mann útaf og það var ekki til að bæta þetta. 1-0 samt sem áður eru ekki stórar tölur, en þeir hefðu getað skorað fimm, sex, sjö mörk, Beitir bjargar okkur oft. En það er bara alltaf eins og í fótbolta, við fáum tvö dauðafæri í síðari hálfleik þrátt fyrir allt þetta, Sigurjón komst einn í gegn og Bjerregaard einn í gegn, en það hefði aldrei verið sanngjarnt. Við áttum aldrei séns í þessum leik,“ sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR að leik loknum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira