Fótbolti

Jói Berg: Ég reyndi að vera rómantískur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jóhann Berg í landsleik gegn Perú í mars.
Jóhann Berg í landsleik gegn Perú í mars. vísir/getty
Árið hefur verið magnað hjá Jóhanni Berg Guðmundssyni sem var í lykilhlutverki hjá spútnikliði Burnley í ensku úrvalsdeildinni. Hann fékk svo nýjan samning og er nýbúinn að trúlofa sig. Svo er HM fram undan. Þvílíkt ár.

„Persónulega var tímabilið hjá mér gott sem og hjá liðinu. Að ná sjöunda sætinu, sem er Evrópudeildarsæti, var auðvitað magnað afrek. Ég kem því inn í þetta verkefni með bullandi sjálfstraust og hlakka til þess að hjálpa liðinu að gera góða hluti í Rússlandi,“ segir Jóhann Berg kátur í sólinni í Laugardalnum.

Það þarf ekki að koma á óvart að Jóhann hafi framlengt samningi sínum við Burnley enda gengur allt upp hjá honum þar.

„Við fjölskyldan búum í Manchester og líkar vel þar. Ég spila svo alla leiki fyrir Burnley í úrvalsdeildinni þannig að ég er mjög sáttur við að vera áfram. Ég skrifaði undir samning svo snemma að það reyndi aldrei á áhuga annarra liða,“ segir Jóhann Berg en hann fær að reyna sig í Evrópudeildinni næsta vetur.

„Sex stærstu liðin eru  langt á undan öllum öðrum og það var því frábært að ná næsta sæti á eftir þeim. Næsta tímabil verður gríðarlega erfitt með Evrópudeildinni og mikið álag. Við förum inn með tilhlökkun og fyrsta markmð er alltaf að halda sætinu í deildinni.“

Jóhann Berg fór í smá frí eftir að ensku úrvalsdeildinni lauk og hann nýtti það frí vel. Bað unnustu sinnar sem sagði já.

„Maður er að fullorðnast og ég ákvað að skella mér á skeljarnar. Þetta er algjörlega mitt ár og vonandi heldur það áfram í gegnum sumarið. Við vorum í Bodrum í Tyrklandi og áttum góða stund þar. Ég ákvað að henda mér á skeljarnar og var að reyna að vera nokkuð rómantískur,“ segir Jóhann Berg hamingjusamur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×