Innlent

Flokksleiðtogarnir tókust hart á um húsnæðismál: „Þetta er leið Thatchers sem rústaði félagslega húsnæðiskerfinu á Bretlandi“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
„Þetta var leið Sjálfstæðisflokksins til að rústa verkamannabústaðakerfinu, svona rústaði Margrét Thatcher [fyrrverandi forsætisráðherra Bretlandi] félagslega húsnæðiskerfinu í Bretlandi og þetta gekk eins og eldur um sinu á vissum tíma um alla Evrópu,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar eftir að Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins viðraði hugmyndir sínar um að nýta félagslega kerfið til að hjálpa þeim einstaklingum sem eru að detta út úr kerfinu að eignast húsnæði sem þeim var úthlutað.

Flokksleiðtogar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar tókust hart á um húsnæðismálin í þjóðmálaþætti Stöðvar 2, Víglínunni, en þau eru sá málaflokkur sem helst brennur á borgarbúum nú þegar örfáar klukkustundir eru þar til kjörstaðir loka.

Eyþór sagðist vilja skoða þennan möguleika til þess að hjálpa fólki að komast út í lífið og auðvelda þeim að eignast íbúð sem eru við það að fara yfir tekjuþakið. Honum hafi orðið ljóst, eftir að hafa rætt við fjölda fólks, að vilji væri fyrir hendi að fara þessa leið. Dagur tók þessum ummælum óstinnt upp og sagði hugmyndir sem þessar hafa orðið til þess að rústa verkamannabústaðakerfinu.

Dagur og Eyþór eru í forsvari fyrir þá flokka sem mælast hæst í skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar undanfarna daga. Þær sýna Samfylkinguna með átta til níu borgarfulltrúa og Sjálfstæðisflokkinn með sjö. Það dró þó heldur betur til tíðinda í gær þegar ný Gallup könnun sýndi að meirihlutinn í borginni væri fallinn og að Sjálfstæðisflokkurinn mældist stærstur með 28,3% fylgi og Samfylkingin með 26% fylgi.



Eyþór Arnalds segir að Sjálfstæðismenn aðhyllist framboðsleiðina í húsnæðismálum.Visir/Vilhelm Gunnarsson
Eyþór aðhyllist framboðsleiðina

Aðspurður hvaða leið Sjálfstæðisflokkurinn vilji fara í húsnæðismálum svarar Eyþór um hæl: „Framboðsleiðina.“ Hann vill hafa nægt framboð af fjölbreyttum lóðum með möguleika á sérbýli og parhúsum og ennfremur að fjölbreyttir aðilar geti byggt á svæðunum. Stefnan, segir Eyþór, einskorðist ekki við dýra þéttingarreiti.

Eyþór gagnrýnir hátt byggingarréttargjald og segir það bitna á þeim sem kaupir og leigir íbúðir. Þetta verði til þess að hægja á uppbyggingu í borginni. Hann gagnrýnir stjórnkerfið fyrir að vera svifaseint. Tafatíminn og óvissan sé of mikil í því samhengi.

„Höfuðborgin á að hafa nægt framboð af fjölbreyttum lóðum, við eigum að auðvelda fólki að byggja og hún á ekki að vera fyrir og hún á ekki að okra á fólki,“ segir Eyþór.

Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið íbúðarhúsnæði í fangið á hagnaðardrifnum einkareknum félögum

Dagur segir að nú sé búið að teiknast upp tveir mjög ólíkir kostir í húsnæðismálum. „Pólitísku línurnar húsnæðismálunum í borgarstjórninni hafa verið þær að Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir því að eftir að GAMMA, Heimavellir og einkarekin, hagnaðardrifin félög komu inn á markaðinn að þá ætti borgin að fara að halda að sér höndum vegna þess að markaðurinn væri að fara að leysa þetta.“

Hann segir Samfylkinguna horfa til borga á Norðurlöndunum þegar komi að húsnæðisstefnu sem einkennist af því að fá inn á markað félög sem ekki séu rekin í hagnaðarskyni til að tempra leiguverð. Hann gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn harðlega fyrir sínar áherslur í húsnæðismálum. „Ég er bara að benda á Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk vegna þess að þessir flokkar lögðu niður verkamannabústaðarkerfið og staðan hjá fólki með litlar tekjur og lítil efni er erfið vegna þess að þessa kerfis nýtur ekki við,“ segir Dagur.

Eyþór þvertekur fyrir þetta og segir að það sé hjákátlegt að borgarstjóri – sem hafi haft völd í 8 ár – bendi á ríkisstjórnir í fortíðinni. „Það sem borgarstjóri hefur gert er það að hann breytti til dæmis skipulagi í Úlfarsárdal og minnkaði framboð á lóðum og hefur verið að hræra í því skipulagi út og suður og það hefur haft neikvæð áhrif á markaðinn.“ Hann segir Sjálfstæðismenn í borginni einmitt hafa kvartað yfir því að það hafi tekið of langan tíma að byggja upp fyrir stúdenta og eldri borgara.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, var gagnrýninn á húsnæðisstefnu Sjálfstæðisflokksins í borginni.Vísir/ Vilhelm Gunnarsson
„Þó það væri satt sem þú ert að segja, Dagur, að Kjartan Magnússon og Marta og hinir og þessir hafi talað með þessum hætti þá varst það þú sem stjórnaðir,“ ítrekar Eyþór en þá sagði Dagur að Júlíus Vífill og Halldór Halldórsson hefðu verið talsmenn Sjálfstæðisflokksins í þessum málum.

Spurður að því hvort hann hafi farið eftir stefnu Júlíusar og Halldórs í Sjálfstæðisflokknum svarar Dagur um hæl: „Að sjálfsögðu ekki, mér dettur ekki í hug, Eyþór Arnalds, að fara eftir húsnæðisstefnu Sjálfstæðisflokksins sem vildi leggja fyrst og fremst áherslu á það að hagnaðardrifin einkarekin félög væru með leigumarkaðinn. Við vildum fara hina norrænu leið, sem er leið jafnaðarmanna varðandi fjölbreyttan húsnæðismarkað með óhagnaðardrifin félög.“

Þekkingarsamfélag, frumkvöðlasetur og kvikmyndaþorp

Þegar rúm tíu ár eru liðin frá hruni og fyrstu skref tekin á síðustu árum til að rísa úr öskustónni segir Dagur að ný framtíðarsýn í húsnæðismálum fyrir Reykjavíkurborg hefði verið nauðsynleg.

„Eitt af því sem mér finnst hvað mest spennandi af því sem er í gangi sú nýja sýn sem við settum fram fyrir Reykjavík eftir hrun. Við sýnum fjölbreyttara atvinnulíf og fleiri stoðir til að byggja velmegun og áhugaverða framtíð fyrir fleira fólk og fyrirtæki. Eitt af því sem hefur ekki fengið athygli í þessari kosningabaráttu eru þessi stóru verkefni. Við erum sjá til dæmis í Vatnsmýrinni hjá Háskólanum og síðan með uppbyggingu Landsspítalans í raun heilt þekkingarsamfélag. 

Nú er verið að byggja stærsta frumkvöðlasetur sem nokkurn tíman hefur sést á Íslandi, 17. 000 fermetrar sem heitir Gróska, þar sem höfuðstöðvar CCP verða og rými er fyrir tugi sprota og vaxtarfyrirtækja. Það verður heilsutengdur klasi við Hringbrautina við nýja Landsspítalann og háskólarnir eru á fullu með okkur í að draga að fjárfestingu og fjármagn inn í þetta. Upp í Gufunesi er Reykjavík Studios búið að kaupa gamla áburðarverksmiðju og fyrirtæki í kvikmyndagerð eru búin að koma sér fyrir og við erum að sjá þar þorp skapandi greina og kvikmyndaþorp. Úti á Granda er ofboðsleg deigla líka með alls konar fyrirtækjum,“ segir Dagur sem beinir kastljósinu á þær breytingar sem hafa orðið á borginni frá hruni.

Eyþór Arnalds segir að meirihlutinn í borgarstjórn hafi einungis náð að byggja rúm 20% af þeim íbúðum sem hefði þurft á síðasta ári.vísir/gva
Aðspurður hvort Samfylkingin hafi staðið við gefin loforð svarar Dagur játandi og segir að við séum að upplifa mesta uppbyggingarskeiði borgarinnar og að aldrei fyrr hafi eins margar íbúðir farið í smíði og á þessu kjörtímabili



„Við eigum þessi viðfangsefni í raun sameiginleg með þessum borgum sem við vorum að nefna áðan. Vaxtarborgunum, til dæmis höfuðborgum Norðurlanda, húsnæðismálin eru mál málanna í öllum þessum borgum því þær eru að vaxa svo hratt. Áskoranirnar eru ekki síst gagnvart ungu fólki og við höfum þess vegna sótt í smiðju Norðurlandanna varðandi lausnir og þess vegna leggjum við svona mikið upp úr samstarfi við óhagnaðardrifin félög. Við sögum fyrir síðustu kosningar að við vildum koma af stað á fimm árum 2500-3000 leigu og búseturéttaríbúðum til þess í raun að kæla markaðinn,“ segir Dagur.

Ekki nóg að ávarpa og ræða

„Það er búið að tala mikið um að ávarpa og ræða og undirbúa,“ segir Eyþór gagnrýninn. „Það skiptir engu máli hvað er sett í eitthvað - það skiptur máli hvað er gert og það sem hefur verið gert er allt of allt of lítið á þessu kjörtímabili. Það er raunveruleikinn. Það þarf ekki að taka mín orð eða Dags fyrir það, það er bara það sem stendur eftir. 322 íbúðir voru byggðar í Reykjavík á síðasta ári, það er raunveruleikinn í lok þessa kjörtímabils. Það segir okkur að það er verið að byggja kannski 20% af því sem ætti að vera að byggja í Reykjavík. Hvaða áhrif hefur það? Jú, það hefur þau áhrif að húsnæðisverð hefur hækkað um 50% á fjórum árum á kjörtímabilinu. Leiguverð hefur hækkað um hátt í það og því er spáð að leiguverð muni hækka um 10% á næstu tólf mánuðum, þannig að þetta hættir ekki neitt.“



Kjörstaðir voru opnaðir víðast hvar klukkan níu í morgun og á flestum stöðum lýkur kosningu klukkan tíu í kvöld.

Hér að neðan er hægt að horfa á Víglínuna í heild sinni. Heimir Már Pétursson, fréttamaður, hefur umsjón með þættinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×