Viðskipti innlent

Stytta afgreiðslutíma í ellefu útibúum og segja upp fólki

Kjartan Kjartansson skrifar
Í sumum tilfellum er afgreiðslutími útibúa styttur um fjórar klukkustundir á dag.
Í sumum tilfellum er afgreiðslutími útibúa styttur um fjórar klukkustundir á dag. Vísir/Stefán
Afgreiðslutími ellefu útibúa Landsbankans á landsbyggðinni verður styttur frá og með næsta mánuði. Þá verður stafsmönnum í útibúi bankans við Hagatorg í Reykjavík fækkað. Bankinn segir að með breytingum sé verið að aðlaga þjónustu útibúanna að breyttum aðstæðum.

Breytingarnar koma til framkvæmda frá 11. til 29. júní, að því er segir í tilkynningu frá Landsbankanum. Afgreiðslutíminn verður styttur í útibúum bankans á Breiðdalsvík, Djúpavogi, Hvammstanga, Kópaskeri, Neskaupstað, Patreksfirði, Raufarhöfn, Skagaströnd, Vopnafirði, Þorlákshöfn og Þórshöfn.

Öll útibúin verða nú opin frá 12:00 til 15:00. Í sumum tilfellum styttist opnunartíminn því um fjórar klukkustundir á dag.

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir að fjórtán starfsmönnum fyrirtækisins hafi verið sagt upp störfum eða séu að fara á eftirlaun samhliða breytingunum. Hann segir engu útibúi vera lokað en heimsóknum viðskiptavina í útibú hafi fækkað sífellt í langan tíma. Þetta séu viðbrögð við margra ára þróun. 

Samhliða breytingunum verður útibú bankans við Hagatorg gert að afgreiðslu frá útibúinu við Austurstræti 11. Bakvinnslustörf í útibúinu við Hagatorg verða lögð niður og bakvinnslustörfum í höfuðstöðvum bankans fækkar. Starfsfólki við Hagatorg mun því fækka en bankinn segir að viðskiptavinir ættu ekki að verða varir við miklar breytingar á þjónustu.

Breytingarnar eru rökstuddar með því að viðskiptavinir leiti í auknum mæli í starfrænar lausnir frekar en þjónustu í útibúum. Í tilkynningu er meðal annars vísað til þess að bankinn hafi nýverið kynnt nýtt snjallsímaforrit.

„Tækniþróun undanfarinna ára gerir það m.a. að verkum að heimsóknum í útibú hefur fækkað og ýmsir þættir bankastarfsemi krefjast færra starfsfólks en áður. Landsbankanum er það engu að síður mjög mikilvægt að reka öflugt útibúanet en alls rekur bankinn 37 útibú og afgreiðslur um allt land,“ segir í tilkynningu Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×