Lífið

Rannsóknir sýni sama sorgarferli við erfiðan skilnað og dauðsfall

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristborg Bóel ræddi við Sindra Sindrason á Stöð 2 í gærkvöldi.
Kristborg Bóel ræddi við Sindra Sindrason á Stöð 2 í gærkvöldi.
Kristborg Bóel Steindórsdóttir er 42 ára fjögurra barna móðir. Hún er kennari að mennt, þó hún hafi aldrei unnið sem kennari og starfar sem blaðamaður á Reyðarfirði. Kristborg gaf út bókina  261 dagur á dögunum en hún ræddi við Sindra Sindrason í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Ég flutti með fjölskylduna og skildi. Fór í annað samband og skildi, og út frá því fór ég að skrifa. Það eru kannski tvö og hálft ár síðan,“ segir Kristborg.

„Á deginum sem þessi ákvörðun var tekin, að ganga í gegnum sambandslit aftur þá fór ég einnig í fóstureyðingu. Svo þetta var mjög mikið drama. Það hefur verið mín leið í gegnum tíðina að skrifa mig í gegnum hlutina.“

Eftir þrjá til fjóra mánuði sá Kristborg að hún væri með eitthvað meira í höndunum en dagbók. Mögulega bók um skilnað sem hún lét verða að veruleika. Kristborg hefur verið gagnrýnd fyrir ákveðna hluti sem koma fram í bókinni.

Kristborg með börnunum.
„Ég hef sagt bæði í bókinni og í viðtölum að samfélagið standi með þér þegar þú missir maka en ekki þegar þú skilur. Það er bara svolítið satt. Þegar þú missir maka í gröfina þá stendur samfélagið með þér. Þá fer fram formleg kveðjuathöfn, þú ert með fólkið þitt áfram og þú ert studdur inn í þetta sorgarferli. Þú hefur tengdafjölskylduna áfram, börnin þín hjá þér og situr í óskiptu búi. Ég er bara að tala út frá persónunni sjálfri og ætla ekki að fara út í það hvað það er hræðilegt fyrir börn að missa hitt foreldrið sitt.“

Kristborg segir að það kannist margir við að missa helming vinahópsins þegar skilnaðurinn banki upp á. Kristborg hefur verið gangrýnd fyrir að bera saman skilnað og fráfall maka. 

„Þetta hefur verið gagnrýnt og ég hef fullan skilning á því. Það er auðvitað ekkert hægt að keppa í sorg. Sorgarferlið er eins mismunandi hjá fólki eins og það er margt. Það liggur íslensk rannsókn að baki hjá henni Guðnýju Hallgrímsdóttur um þetta mál einmitt. Þetta er  nákvæmlega sama sorgarferli sem fer í gang við erfiðan skilnað og dauðsfall. Það er ekki ætlun mín að særa neinn með þessari umræðu.“

Hér að  neðan má sjá viðtali við Kristborgu í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×