Innlent

Borgarstjóri gagnrýnir hugmynd D-lista: „Lágmarks innsýn í atvinnulíf borgarinnar hefði skotið þessari hugmynd á bólakaf“

Þórdís Valsdóttir skrifar
Dagur segir að ekki standi steinn yfir steini í þessum hugmyndum Sjálfstæðisflokksins.
Dagur segir að ekki standi steinn yfir steini í þessum hugmyndum Sjálfstæðisflokksins.
Dagur B. Eggertsson tjáði sig um hugmynd Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um bíllausa byggð í Örfirisey á Facebook síðu sinni í dag. „Sjálfstæðisflokkurinn kynnti í gær sína þriðju útfærslu af byggð í Örfirisey á fjórum vikum – og er synd að hún hafi ekki vakið meiri athygli. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum hugmyndum, frekar en þeim fyrri,“ segir Dagur.

Hugmynd Sjálfstæðisflokksins er að miklu leyti byggð á nýjum landfyllingum sem þyrfti að gera við núverandi svæði í Örfirisey. Þar er gert ráð fyrir að bílar aki ekki um hverfið, göngu- og hjólabrú yfir til Hörpu og að sú brú yrði opnanleg til að hindra ekki aðkomu báta og skipa að höfninni.

Dagur segir að ekki verið séð að umrædd brú stytti ferðatíma gangandi og hjólandi neitt og að „lágmarks-innsýn í atvinnulíf borgarinnar hefði skotið þessari hugmynd á bólakaf“.

„Við erum að tala um höfn sem er lifandi fiskihöfn og sem slík eitt skemmtilegasta svæði borgarinnar sem við eigum sannarlega að standa vörð um, en til viðbótar: stærsta verstöð Íslands, vinsælasta hvalaskoðunarhöfn landsins, viðkomustaður minni skemmtiferðaskipa, að ótöldum öðrum ferðaþjónustubátum af öllu tagi og þannig mætti áfram telja,“ segir Dagur.

Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn átti sig greinilega engan veginn á mikilvægi hafnarinnar fyrir atvinnulíf og ásýnd borgarinnar og þá fjölbreyttu starfsemi sem þar er. „Að ótöldum þeim viðsnúningi flokksins frá því að öll heimili eigi að eiga tvo bíla að kynna bíllaust hverfi án nokkurra samgöngulausna. Hvenær ætlar þessum ótrúlega vandræðagangi að linna?,“ spyr Dagur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×