Erlent

Trump lofar að koma í veg fyrir að störf tapist í Kína

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Trump hefur hingað til haft meiri áhyggjur af því að störf fari frá Bandaríkjunum til Kína
Trump hefur hingað til haft meiri áhyggjur af því að störf fari frá Bandaríkjunum til Kína Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti setti færslu á Twitter í nótt þess efnis að hann og Xi Jinping, forseti Kína, myndu leita allra leiða til að bjarga kínverska fjarskiptarisanum ZTE. Verð hlutabréfa á mörkuðum í Hong Kong tók strax mikinn kipp við tíðindin.

Bandaríska viðskiptaráðuneytið setti fyrtækið í sjö ára langt viðskiptabann í síðasta mánuði vegna ásakana um að það hefði átt í ólöglegum viðskiptum í Íran og Norður-Kóreu. Um áttatíu þúsund manns starfa fyrir ZTE í Kína en fyrirtækið þyrfti að óbreyttu að hætta allri starfsemi þar sem það reiðir sig á bandaríska íhluti og tækni.

Trump segist nú hafa gefið viðskiptaráðuneytinu skipun um að leysa málið til að koma í veg fyrir að fjöldi starfa tapist í Kína. Þykir það sæta nokkrum tíðindum að Trump hafi áhyggjur af atvinnuleysi í Kína miðað við fyrri yfirlýsingar um viðskiptahalla.

Nú er annað hljóð komið í strokkinn og segja fréttaskýrendur það til marks um að Trump sé að reyna að koma til móts við Kínverja í aðdraganda formlegra viðræðna síðar í þessari viku. Þar munu fulltrúar ríkjanna reyna að vinda ofan af viðskiptastríði sem hófst með innleiðingu tolla á kínverskar innflutningsvörur í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×