Innlent

Nemendur við Háskóla Íslands eru að missa þolinmæðina

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
vísir/ernir
Í gær var undirrituð viljayfirlýsing fyrir uppbyggingu 160 stúdentaíbúða í Skerjafirði og þá sérstaklega fjölskylduíbúða. Tillagan var lögð fram í borgarráði og samþykkt þar. Stúdentaráð fagnar augsýnilegum áhuga borgaryfirvalda á húsnæðismálum stúdenta og frumkvæði þeirra. Fulltrúar stúdenta segja Háskóla Íslands þó sýna húsnæðismálum nemenda lítinn skilning og eru nú að missa þolinmæðina.

„Uppbygging stúdentaíbúða er mikilvægt hagsmunamál stúdenta þar sem um 800 stúdentar eru á biðlista eftir íbúðum og Félagsstofnun Stúdenta (FS) nær einungis að þjónusta um 9% háskólanema í Háskóla Íslands, þegar Norðurlandaþjóðir þjónusta að meðaltali 15% nemenda og stefna að því að geta þjónusta 20% fyrir árið 2020.“

Gagnrýnir Stúdentaráð að ekki allir sýni uppbyggingu stúdentaíbúða slíkan áhuga né frumkvæði í starfi en á háskólasvæðinu sjálfu hefur uppbygging stúdentaíbúða á reit Gamla Garðs staðið til í um tvö ár.

„Engin umræða hefur farið fram í skipulagsnefnd Háskólaráðs um reitinn, né innan Háskólaráðs þrátt fyrir að fulltrúar stúdenta hafi ítrekað kallað eftir því. Samningurinn, sem er undirritaður af rektor, hefur því verið brotinn. Sömuleiðis eru engar fréttir af nýju deiliskipulagi við reit Gamla Garðs og ekki hefur enn verið fjallað um það innan Háskólaráðs.“

Fyrir fulltrúum stúdenta lítur þetta svo út að Háskóli Íslands sýnir aðstæðum stúdenta í húsnæðismálum lítinn skilning.

„Stúdentaráð krefst þess að Háskólinn standi við undirritaða samninga og fari að vinna að deiliskipulagstillögu við Gamla Garð. Stúdentar eru að missa þolinmæðina.”


Tengdar fréttir

Tvö félög fá lóðir fyrir 260 nýjar íbúðir

Félagsstofnun stúdenta og Bjarg íbúðafélag hafa fengið lóðarvilyrði til að byggja samtals 260 leiguíbúðir fyrir stúdenta og félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar í Skerjabyggð við Skerjafjörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×