Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - FH 29-22 │ÍBV einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum

Gabríel Sighvatsson skrifar
ÍBV er aðeins einum leik frá Íslandsmeistaratitli.
ÍBV er aðeins einum leik frá Íslandsmeistaratitli. vísir/anton

ÍBV og FH áttust við í þriðja leik liðanna í úrslitarimmu Olís-deildar karla í Vestmannaeyjum í kvöld.

Stemningin í húsinu var gjörsamlega brjáluð og leit stendur yfir að betri stuðningsmannasveit á Íslandi.

Stuðningsmenn hjálpuðu Eyjamönnum að landa stórsigri en ÍBV lék á als oddi í 29-22 sigri á Hafnfirðingunum.

Það urður læti um miðbik fyrri hálfleiks þegar Andri Heimir Friðriksson og Gísli Þorgeir Kristjánsson voru að berjast um boltann. Gísli náði til hans á undan og þá virtist Andri Heimir gefa honum olnbogaskot í höfuðið.

Allt gjörsamlega trylltist í kjölfarið en Andri Heimir fékk aðeins tvær mínútur en spurning er hvort það verði einhverjir eftirmálar af þessu. Gísli fór í kjölfarið meiddur af velli, með höfuðáverka.

Eyjamenn voru annars betri aðilinn frá fyrstu mínútu og voru strax komnir nokkrum mörkum yfir.

Aron Rafn varði og varði, Eyjamenn skoruðu og skoruðu og áttu einn sinn besta leik á tímabilinu.

Í seinni hálfleik breyttist lítið, Eyjamenn keyrðu á gestina sem áttu engin svör. Róbert Aron og Agnar Smári voru frábærir og ÍBV leiðir einvígið 2-1.

Mönnum var heitt í hamsi eftir leik og Halldór Jóhann Sigfússon og aðstoðarmaður hans hraunuðu yfir Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV eftir leik, þegar undirritaður var með hann í viðtali. Arnar var að spjalla við Gísla Þorgeir eftir leik, þegar Halldór og Árni skárust í leikinn.

Þeir sökuðu Arnar um að „stýra liði af skítakarakterum“ og að Andri Heimir hefði verið að reyna að slasa Gísla í það sem var aldrei „50/50 bolti.“ Arnar þvertók fyrir það.

Af hverju vann ÍBV?
FH mætti ekki til leiks fyrstu mínúturnar og Eyjamenn refsuðu. Staðan var fljótt orðin 6-1 fyrir Eyjamenn og eftir það var brekkan brött fyrir FH-inga.

FH-ingar minnkuðu muninn mest í tvö mörk það sem eftir lifði leiks en Eyjamenn spiluðu frábærlega í vörn og sókn og áttu sigurinn fyllilega skilið.

Hvað gekk illa?
FH-ingar byrjuðu illa og það kostaði þá. Það gekk erfiðlega að brjóta vörn ÍBV á bak aftur og þegar þeir náðu því loks stóð Aron Rafn Eðvarðsson í vegi fyrir þeim.

FH-ingar misstu Gísla Þorgeir af velli og voru með meiddan markmann sem var ekki að hjálpa og verkefnið varð þeim að lokum ofviða.

Hverjir stóðu upp úr?
Aron Rafn Eðvarðsson var frábær í marki heimamanna með 17 varða bolta af 39 skotum sem gerir 44 prósent markvörslu. Birkir Fannar var meiddur í marki heimamanna en stóð sig vel og átti 10 varin skot.

Róbert Aron Hostert var markahæstur í liði ÍBV með 8 mörk, var stórkostlegur rétt eins og Agnar Smári Jónsson sem skoraði 7 mörk í það sem gæti hafa verið síðasti heimaleikur hans fyrir ÍBV, allavega í bili.

Hvað gerist næst?
ÍBV er komið í 2-1 í einvíginu og getur lyft titlinum í Kaplakrika á laugardaginn.

Arnar: Þetta er bara slys

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV. vísir/getty

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, var sáttur með spilamennskuna og úrslitin í kvöld.

„Ég er bara mjög glaður. Ég er mjög sáttur með hvernig við komum inn í þennan leik og hvernig við spiluðum hann. Það lögðu allir sitt af mörkum, allir með og menn bara virkilega flottir,“ sagði Arnar.

„Það gekk margt upp í dag hjá okkur, varnarlega og sóknarlega og ég er bara heilt yfir sáttur við leikinn. Auðvitað getum við alltaf horft á okkar tempó sem við getum gert betur í og við munum skoða það fyrir næsta leik“

Atvikið sem allir tala um eftir leik er meint brot Andra Heimis, leikmann ÍBV á leikmannig FH, Gísla Þorgeiri.

„Mér fannst þetta bara vera 50/50 bolti, mér fannst Andri bara vera að skutla sér eftir boltanum, þetta er bara slys. Að halda einhverju öðru fram eins og FH-ingarnir voru að gera er bara bull og vitleysa. Mér bara sárnaði þetta, það sáu það allir sem horfa á þetta, þetta er 50/50 bolti, Andri er að skutla sér á eftir boltanum og það er enginn ásetningur í einu eða neinu. Slys, punktur.“

FH-ingar voru ekki par sáttir eftir leik og sökuðu Andra Heimi um að hafa ætlað að slasa Gísla Þorgeir en Arnar tók ekki vel í það.

„Það verður þá bara að vera þannig, ég ætla bara ekkert að fara þessa leið í þessu, ég nenni því bara ekki,“

Draumurinn er síðan auðvitað að lyfta titlinum í Kaplakrika á laugardag.

„Auðvitað förum við í það þannig og vitum að það verður mjög erfiður leikur á þeirra sterka heimavelli, við verðum að leggja okkur fram eins og við gerðum í dag og sækja þennan titil sem okkur langar öllum í,“ sagði Arnar að lokum.

Halldór Jóhann: Vonandi er þetta ekki heilahristingur

Halldór Jóhann á hliðarlínunni fyrr í vetur. vísir/eyþór

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, var svekktur með úrslitin og leik sinna manna í kvöld.

„Í fyrsta lagi vorum við bara ekki nógu góðir, það er ástæðan fyrir að við töpum með 7 mörkum, leikurinn fjaraði svolítið út í lokin eins og gengur og gerist, en mér fannst að þegar við vorum að ná að skora, þá var engin markvarsla.“

„Við skiptum Birki (Fannari Bragasyni, markmanni FH) af velli í hálfleik, því hann var að drepast í hnénu en neyddumst til að skipta honum aftur inn á, því Gústi (Ágúst Elí Björgvinsson) klukkaði ekki bolta. Hann kemur inn með smá kraft en við erum að gera of mikið af feilum og þetta var bara ekki okkar dagur í dag, það verður að segjast eins og er.“

FH lenti undir snemma leiks og þeir náðu aldrei að koma almennilega til baka eftir það.

„Það er alltaf aftur snúið, þetta er ekki þannig en það hafa verið miklar sveiflur í þessu einvígi milli atvika og milli hluta af leiknum. Fyrst og fremst vorum við aldrei líklegir til að ná einhverju meiru út úr þessu, við vorum alltaf að elta, við förum í þrjú mörk, förum aftur upp í 5 mörk og hefðum þurft að koma þessu niður í eitt, tvö mörk og setja aðeins meiri pressu á þá og þá hefði kannski komið aðeins meira líf í okkar.“

„Ég er mjög svekktur með hvernig við byrjuðum leikinn og hvernig við bregðumst við því. Það er ótrúlegt að við vorum bara að tapa með 3 mörkum í hálfleik miðað við hvað við vorum slakir.“

Halldór var aðeins búinn að róa sig eftir leik og fór öðrum orðum um brot Andra Heimis á Gísla Þorgeiri.

„Ég held að það sé bara slys, ég trúi engum leikmönnum það að ætla að slasa neinn og ég held að þetta hafi bara verið slys en afleiðing brots er svakaleg þarna og í ljósi þess að þeir gefa refsingu, þá hefði ég auðvitað viljað sjá rautt spjald en ég held að þeir hafi bara ekki séð þetta nógu vel til þess að geta gert það. Það er auðvitað slæmt en fyrst og fremst er þetta bara slys og við og aðallega Gísli betum skaða af því sem er hrikalegt og við tókum enga sénsa með að spila honum aftur.“

Hann sagðist vera sammála Arnari Péturssyni, þjálfara ÍBV að þetta hefði verið slys.

„Ég var alveg sammála því. Ég held að þetta sé ekki rétt að ætla að fá mig í eitthvað orðastríð með Arnar um það, ég sagði við hann að þetta væri stríð en það hefði hinsvegar alltaf átt að refsa þessu með rauðu spjaldi, það er annað mál. Menn voru að spila handbolta og slysin geta auðvitað orðið en þegar er verið að taka upp afleiðingu brots og við erum með mikla höfuðáverka en dómararnir sáu þetta ekki og við treystum þeim bara fyrir því líka en þarna fór stórt atriði framhjá þeim og auðvitað slæmt fyrir okkur að missa Gísla.“

Gísli slasaðist við þetta.

„Hann er náttúrulega með höfuðáverka, við þurfum að skoða hvernig það er og vonandi er þetta ekki heilahristingur og við getum teflt honum fram á laugardaginn, það er staða sem verður tekin á morgun.“

„Auðvitað er virkilega stórt að missa hann fyrir fjórða leikinn og svo erum við líka með Ása (Ásbjörn Friðriksson) meiddan. Þetta eru þeir sem hafa verið með mjög margar mínútur fyrir okkur í vetur og það er mjög slæmt að missa þá á þessum lokametrum á mótinu.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.