Fótbolti

Platini beitti brögðum í skipulagningu HM 1998: „Haldið þið að aðrir hafi ekki gert hið sama?“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Michel Platini kunni að spila sér í hag
Michel Platini kunni að spila sér í hag vísir/getty
Fyrrum formaður evrópska knattspyrnusambandsins UEFA, Michel Platini, viðurkenndi í viðtali við franska fjölmiðla að hann hafi beitt brögðum til þess að Frakkland og Brasilía gætu ekki mæst fyrr en í úrslitaleik lokakeppni HM 1998.

Platini var yfir skipulagningu lokakeppninnar í Frakklandi 1998 ásamt fyrrum formanni franska knattspyrnusambandsins, Fernand Sastre. Platini sætir nú fjögurra ára banni frá viðkomu að öllum fótboltatengdum málum. Sastre lést í júní 1998 og sá því plan þeirra félaga ekki til enda.

„Það var draumur allra [úrslitaleikur á milli Frakklands og Brasilíu],“ sagði Platini í viðtali við France Bleu. „Við beittum smá brögðum. Það þurfti að skipuleggja leikjaplanið og við gerðum það þannig að ef Frakkar og Brasilíumenn yrðu efstir í sínum riðlum þá myndu þeir ekki mætast fyrr en í úrslitunum. Við vorum á heimavelli og nýttum okkur það.“

Eins og frægt er þá sigraði Frakkland Brasilíu í úrslitunum fyrir tuttugu árum og tryggðu sér sinn eina heimsmeistaratitil til þessa.

„Við lögðum okkur ekki alla fram við að geta skipulagt heimsmeistaramót án þess að leyfa okkur að beita smá brögðum. Haldið þið að aðrir hafi ekki gert slíkt hið sama? Í alvöru?“

Brasilíumenn voru ríkjandi heimsmeistarar og fóru þess vegna í riðil A og Frakkar voru settir í riðil C sem gestgjafar áður en drátturinn fór fram. Því var bragðatafl Platini og Sastre lítið mál.










Tengdar fréttir

Platini: Samviska mín er hrein

Frakkinn segist ekkert hafa gert rangt og heldur áfram að berjast gegn banninu sem hann var dæmdur í.

31 dagur í HM: Skúrkurinn sem varð að hetju í ótrúlegum seinni hálfleik

Flestir fótboltamenn hafa lent í því á ferlinum að sinna ekki varnarvinnunni nógu vel eða gera mistök sem leiða til þess að andstæðingurinn skori. Oftast eru stuðningsmennirnir fúlir í smá stund eftir á, kannski nokkra daga, en það svo gleymist og lífið heldur áfram. Það er annað þegar mistökin gerast á stærsta sviðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×