Handbolti

Klæjaði í puttana alla úrslitakeppnina

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Íris Björk Símonardóttir.
Íris Björk Símonardóttir.
Markvörðurinn Íris Björk Símonardóttir skrifaði í gær undir samning hjá Val eftir tveggja ára fjarveru frá handbolta. Var hún einn fimm leikmanna sem Valsliðið kynnti til leiks á blaðamannafundi en eftir að hafa tapað í úrslitaeinvíginu gegn Fram á dögunum stefnir Valsliðið á alla titla á komandi tímabili.

Íris var valin handboltakona ársins árið 2015 eftir að hafa verið lykilleikmaður í Íslandsmeistaratitli Gróttu. Hefur hún fjórum sinnum verið valin besti markvörður Íslandsmótsins og leikið 69 landsleiki. Hún sagði að það hefði hjálpað til við ákvörðunina að kannast við nokkur andlit í Valsliðinu.

„Ég kannast við nokkur andlit hérna, ég hef spilað fyrir Ágúst áður og  Lovísa kemur með mér úr Gróttu. Svo hef ég bestu vinkonu mína, Önnu Úrsúlu, í liðinu og það hjálpar. Það var því auðvelt að segja já og ég get ekki beðið eftir því að fara af stað,“ sagði Íris sem fékk fleiri tilboð.

„Það voru fleiri lið sem komu til greina en þetta var niðurstaðan og ég er afar sátt við hana. Umgjörðin og hefðin hérna er frábær og hér getum við, ef við höldum rétt á spilunum, barist um alla titla.“

Hún tók sér pásu frá handbolta til að einbeita sér að barneignum en hún er núna tilbúin til að snúa aftur á völlinn.

„Ég held að ég hafi mætt á nánast hvern einasta leik í úrslitakeppninni og þá kemur þessi löngun til að spila aftur. Allt tímabilið hefur mig klæjað í puttana að komast aftur af stað,“ sagði Íris, sem vildi ekki fara sömu leið og Steinunn Björnsdóttir og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, sem sneru aftur inn á völlinn nokkrum vikum eftir barnsburð.

„Þær eru þvílíkar ofurkonur, þær fæddust held ég með mikla magavöðva en ég vildi gefa mér sumarið til að komast aftur í stand,“ sagði Íris hlæjandi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×