Umfjöllun og viðtöl: Haukar - ÍBV 22-25 │Frábær viðsnúningur ÍBV á Ásvöllum

Benedikt Grétarsson skrifar
Eyjamenn eru komnir í kjörstöðu.
Eyjamenn eru komnir í kjörstöðu. vísir/anton
ÍBV er komið í draumastöðu í einvígi sínu gegn Haukum í undanúrslitum Olísdeildar karla í handbolta. Eyjamenn hafa 2-0 forystu eftir sterkan útisigur að Ásvöllum 22-25. ÍBV getur því tryggt sér sæti í úrslitunum með sigri í Vestmannaeyjum á laugardaginn.

Gestirnir mættu grimmir til leiks og fóru illa með vörn Hauka með frábæru línuspili inn á Kára Kristján Kristjánsson sem skoraði m.a. fjögur mörk í röð. Eyjamenn komust í 8-6 en þá kom svakalegur kafli heimamanna.

Vörnin þéttist og í kjölfarið duttu Haukar í sannkallað hlaðborð af hraðupphlaupum. Aron Rafn Eðvarðsson var svo sannarlega ekki öfundsverður að standa einn gegn eldfljótum leikmönum Hauka en markvörðurinn öflugi varði þó nokkur dauðafæri og hélt sínum mönnum á floti.

Brynjólfur Snær Brynjólfsson byrjaði í hægra horninu hjá Haukum og fékk greinilega þær skipanir að reykspóla fram við hvert tækifæri. Þetta skilaði kappanum hvorki meira né minna en sjö mörkum í fyrri hálfleik og Haukum þægilegu forskoti að loknum 30 mínútum, 15-9.

Seinni hálfleikur var algjör andstæða þess fyrri. Hin fræga „ÍBV-vörn“ hrökk í gang og Haukar voru gjörsamlega eins og hauslaus her í sókninni. Jafnt og þétt minnkuðu gestirnir muninn og þegar um átta mínútur voru til leiksloka, jafnaði gamli Haukamaðurinn Sigurbergur Sveinsson metin í 20-20 og þá voru Haukar endanlega farnir út af sporinu.

ÍBV gekk á lagið og landaði frábærum sigri og sýndi í leiðinni stórkostlegan karakter. Eyjamenn geta klárað dæmið á laugardaginn og ég er þess fullviss að menn vilja ekkert koma aftur á Ásvelli en ansi margir leikmenn ÍBV virkuðu á síðustu dropunum í kvöld.

Afhverju vann ÍBV leikinn?

ÍBV getur skellt í lás í vörn og markvörslu. Þeir héldu Haukum í sex mörkum í seinni hálfleik og gáfust aldrei upp þrátt fyrir slæma stöðu. Haukar voru klaufar að komast ekki í sjö marka forskot í upphafi seinni hálfleiks þegar hraðupphlaup og dauðafæri fóru forgörðum og heimamenn náðu aldrei neinu flugi gegn frábærum Eyjamönnum í seinni hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Aron Rafn Eðvarðsson var enn og aftur að reynast Haukum erfiður i markinu. Aron virðist vera með hreðjatk á Haukamönnum í dauðafærum og vítaköstum og þennan þröskuld eru Haukar ekki að komast yfir. Kári Kristján byrjaði af gríðarlegum krafti og Andri Heimir var gríðarlega drjúgur í vörn og sókn. Dagur Arnarsson lék frábærlega á lokakaflanum.

Brynjólfur Snær Brynjólfsson og Björgvin Páll Gústavsson voru bestu menn Hauka. Hákon Daði var óvenju slakur og Haukar eiga líklega ekki séns í ÍBV með hann svona daufan.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var stirður á löngum köflum en auðvitað má skrifa það á góðar varnir og sterka markvörslu. Haukar urðu enn og aftur skíthræddir við Eyjamenn þegar það kom stemming í lið gestanna. ÍBV virðist einfaldlega vera með mikla andlega yfirburði gegn Haukum og þeir rauðu virka eins og hræddir smástrákar þegar Eyjamenn byrja að hrista aðeins upp í leiknum.

Hvað gerist næst?

Haukar halda í sjóferð á laugardaginn og mæta til Eyja. Ef Haukamenn ná ekki að setja kassann örlítið fram og mæta ÍBV af krafti, er ekkert nema sumarleyfi sem bíður lærisveina Gunnars Magnússonar. Leikmenn ÍBV virkuðu ansi þrekaðir undir lok leiks og kannski vinnur það með Haukum að það er stutt í næsta leik. Ég myndi samt ekki veðja á það.

vísir/anton
Arnar: Hann líður fyrir að vera sonur minn í þessu liði

„Mér fannst við frábærir fyrsta korterið og mjög ferskir. Ég tók leikhlé og fannst vera fullt af sénsum sem við vorum ekki að nýta og ég var pínu smeykur að ferpalagið til Rúmeníu sæti í okkur. Seinni hálfleikurinn var svo bara frábær,“ sagði sigurreifur Arnar Pétursson eftir frábæran útisigur ÍBV gegn Haukum.

„Varnarleikurinn var frábær í seinni. Það er karakter, vilji og vinnusemi að ná að snúa svona leik við með varnarleik. Við vorum þreyttir sóknarlega og Sigurbergur og Róbert Aron ekki að finna sig og það gerir þetta jafnvel bara sætara.”

„Við erum án Magnúsar Stefánssonar sem er okkar fyrirliði og aðal varnarmaður. Ég er gríðarlega stoltur af strákunum í kvöld.“

Dagur, sonur þjálfarans, kom með mikinn kraft og áræðni inn í leikinn undir lokin og átti flottan leik. Arnar segir Dag kannski ekki alltaf njóta sannmælis inni á vellinum.

„Hann líður fyrir að vera sonur minn í þessu liði og hefur alltaf gert. Hann var frábær og sprengir þetta upp með hraða sem okkur vantaði. Hann var mjög góður og ég er stoltur af honum,“ sagði Arnar Pétursson.

vísir/anton
Gunnar: Missum algjörlega hausinn

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka var heldur brúnaþungur eftir tap gegn ÍBV en Haukar virtust vera með unnin leik í höndunum í stöðunni 16-10.

„Þetta leit vel út en svo bara koðnuðum við niður sóknarlega og vantar framlag frá fleiri leikmönnum. Svo erum við bara ekki að spila sóknarleikinn eins og við viljum gera og það er fúlt að sjá þennan mikla mun á milli hálfleikanna.“

Forskot Hauka var gott að loknum fyrri hálfleik en kálið var ekki sopið þó í ausuna væri komið.

„Ég held að menn hafi nú ekki haldið að þetta væri komið á móti ÍBV. Við vitum að þeir geta alltaf komið til baka. Það vantar bara of margt í seinni hálfleik. Við hættum að keyra á þá og erum of passífir. Það vantar líka grimmd í færunum og við hættum bara að sækja á markið.“

Haukar virtust missa nokkuð auðveldlega móðinn þegar áhlaup ÍBV kom en það er ekki í fyrsta sinn í vetur sem það gerist.

„Við missum hausinn þegar mótlætið kemur og þá tökum við mjög slæmar ákvarðanir. Því fór sem fór. Við mætum bara tvíelfdir í leikinn á laugardaginn. Við erum upp við vegg og þurfum sigur. Við forum til Eyja og sækjum sigur þar,“ sagði Gunnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira