Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Haukar 27-25 | Eyjamenn með sópinn á lofti

Benedikt Grétarsson skrifar
Eyjamenn hafa verið í miklu stuði.
Eyjamenn hafa verið í miklu stuði. vísir/anton
Eyjamenn í úrslit ÍBV leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta. Þetta varð ljóst eftir 27-25 sigur Eyjamanna gegn Haukum en ÍBV vann einvígið 3-0. Annað hvort Selfoss eða FH verður andstæðingur ÍBV í úrslitunum.

Agnar Smári Jónsson skoraði sex mörk fyrir ÍBV og Aron Rafn Eðvarðsson varði 16 skot í markinu.

Markahæstur Haukamanna var Hákon Daði Styrmisson með sex mörk og Björgvin Páll Gústavsson varði sex skot.

ÍBV skoraði fyrsta mark leiksins en Haukar svöruðu með fjórum mörkum í röð. Vörnin hjá ÍBV batnaði þá til muna og heimamenn náðu í kjölfarið betri tökum á sínum leik.

Eyjamenn náðu aftur forystunni þegar um 12 mínútur voru eftir og héldu henni allt þar til flautað var til hálfleiks. Það bar annars helst til tíðinda að Elliði Snær Viðarsson fékk þrjár brottvísanir í fyrri hálfleik og þar með rautt spjald. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 12-11, ÍBV í vil.

Eyjamenn byrjuðu af miklum krafti í seinni hálfleik og skoruðu fyrstu fjögur mörkin. Þar með var staðan orðin 16-11.

Akkúrat þarna var ekkert sem benti til annars en öruggs heimasigurs en Haukar voru einfaldlega í slæmum takti.

Haukar fá þó hrós, því að gestirnir gáfust ekki upp í erfiðri stöðu og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Þegar um fimm mínútur voru eftir voru Haukar búnir að jafna metin í 23-23, einum manni fleiri og með boltann.

Þá steig Aron Rafn Eðvarðsson sterkur upp, varði skot frá Haukum og á lokakaflanum voru Eyjamenn enn og aftur sterkari á svellinu en Haukar.

ÍBV bíður þá eftir verðandi andstæðing í úrslitaeinvíginu en Haukar fara inn í snjósumarið mikla.

Af hverju vann ÍBV leikinn?

Góður kafli Eyjamanna í upphafi seinni hálfleiks gerði Haukum erfitt fyrir og tók mikla orku frá Hafnfirðingum að jafna metin. Það var þó sterkur lokakaflinn og góð frammistaða Arons Rafns sem voru ástæðan fyrir sigrinum í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Aron Rafn Eðvarðsson var stöðugur í markinu hjá ÍBV og varði mörg mikilvæg skot. Ég ét derhúfuna mína ef kappinn verður ekki lykilmaður í landsliðinu í komandi verkefnum. Liðsheildin var sterk hjá útileikmönnum liðsins en Grétar Þór Eyþórsson var þyngdar sinnar virði í gulli á lokamínútunum.

Hvað gekk illa?

Markvarsla Hauka var hrikaleg. Það er nánast ómögulegt fyrir lið að ferðast til Eyja og sækja sigur ef einungis sjö skot eru varin í markinu. Sorglegur endir á ferli Björgvins í Haukabúning en hann var búinn að vera frábær í allan vetur.

Hvað gerist næst?

Haukar finna sundskýluna og fara í frí. ÍBV leikur til úrslita um titilinn en sú rimma hefst eftir rúma viku.

vísir/bára
Gunnar: Tveir rangir dómar fara með leikinn

„Þetta er bara sorglegt en ég er stoltur af strákunum sem gáfu allt í þetta. Svekkjandi auðvitað að vinna ekki leik í einvíginu en þetta voru allt jafnir leikir sem gátu farið á hvorn veginn sem var,“ sagði vonsvikinn þjálfari Hauka, Gunnar Magnússon eftir 27-25 tap gegn ÍBV.

Haukar fengu á sig tvo ruðningsdóma undir lok leiks og Gunnar var ekki sáttur við þá túlkun dómara.

 „Það verður gaman eða kannski ekki gaman að skoða þetta betur. Þessir tveir ruðningar sem við fáum á okkur undir lok leiksins, það þarf klárlega að skoða þá betur.”

„Frá mínu sjónarhorni voru þetta tveir rangir dómar sem mér fannst fara með leikinn í dag. Það er svekkjandi ef svo er en svona hlutir gerast í handbolta.“

Gunnar viðurkennir að betra liðið hafi unnið þetta einvígi.

„Það er ekkert grín að eiga við þetta ÍBV-lið. Það er búið að setja saman frábært lið hérna í Eyjum og þeir eiga hrós skilið. Það er gaman að glíma við þá en við þurftum betri vörn og markvörslu til að klára þetta.”

„Því miður fór þetta svona en þetta var skemmtileg rimma og ég óska ÍBV góðs gengis í framhaldinu,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Hauka og fyrrum þjálfari ÍBV.

vísir/eyþór
Arnar: Ég er að fara til Tene

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV var þreyttur og sáttur eftir sigur Eyjamanna á Haukum.

„Þetta leit kannski ekkert sérstaklega út á tímabili en við komum til baka og kláruðum þetta. Þetta er þriðji leikurinn okkar á sex dögum og þar inni var erfitt ferðalag frá Rúmeníu.”

„Þetta er bara búin að vera erfið vika og ég er virkilega stoltur af strákunum að klára Haukana hér í dag.“

„Haukarnir eru stórveldi í íslenskum handbolta á þessari öld og ekki vanir að láta sópa sér út. Við vorum bara góðir og erum bara góðir.”

„Við sýnum karakter í fjarveru lykilmanna, Maggi í banni og Ellii með rautt í fyrri hálfleik.“

Arnar og hans menn fá nú loksins örlitla hvíld eftir stranga dagskrá.

„Já, nú kemur einhver 10 daga pása og hún er heldur betur kærkomin. Ég er að fara til Tene á mánudaginn, einhverjir fara til Köben og aðrir til London. Við notum þetta frí bara vel,“ sagði Arnar með bros á vör.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira