Erlent

Ráðherra segir koma til greina að Ísraelsmenn drepi Assad

Samúel Karl Ólason skrifar
Bashar Al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar Al-Assad, forseti Sýrlands. Vísir/AFP
Yuval Steinitz, orkumálaráðherra Ísrael, segir koma til greina að Ísraelsmenn drepi Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, komi hann ekki í veg fyrir að Íranar noti Sýrland til að gera árásir á Ísrael. Fregnir hafa borist af því að Íranar íhugi nú að gera árásir á Ísrael vegna árása sem Ísraelsmenn hafa gert gegn sveitum Íran og Hezbollah í Sýrlandi.

Samkvæmt Times of Israel féllu minnst sjö íranskir hermenn í árásum í Sýrlandi sem talið er að Ísraelsmenn hafi gert.



„Haldi Assad áfram að leyfa Írönum að athafna sig í Sýrlandi, ætti hann að vita að hann er að skrifa undir eigin dauðadóm. Við munum fella ríkisstjórn hans,“ sagði Steinitz. „Assad getur ekki setið rólegur í höll sinni, endurbyggt stjórnvöld sín og á sama tíma leyft árásir gegn Ísrael frá Sýrlandi. Það er svo einfalt.“

Yuval Steinitz, orkumálaráðherra Ísrael.Vísir/AFP
Eiga von á árásum

Embættismenn í Ísrael segjast hafa heimildir fyrir því að Íran ætli að láta sveitir sínar í Sýrlandi skjóta eldflaugum að Ísrael. Að uppreisnarvörðurinn, Hezbollah og málaliðar Íran í Sýrlandi ætli sér að skjóta eldflaugum að hernaðarlegum skotmörkum í norðurhluta Ísrael.

Íbúum svæðisins hefur þó ekki verið gert að grípa til nokkurra aðgerða og er þeim sagt að haga sér eðlilega.

Steinitz var spurður hvort það væri réttmætt að ógna lífi Assad í aðdraganda fundar Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, og Vladimir Putin, forseta Rússlands, sem er dyggur stuðningsmaður Assad.

„Fólk verður að skilja að við erum með rauðar línur. Ef einhver sér hag í því að verja Assad ætti sá að segja honum að koma í veg fyrir eldflauga- og drónaárásir á Ísrael. Assad getur leyft Íran að flytja eldflaugar, loftvarnarkerfi og dróna til Sýrlands, eða hann getir komið í veg fyrir það. Ef hann leyfi það ætti hann að vita að því fylgir ákveðið gjald.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×