Íslenski boltinn

Björn Berg: Vissi að ég myndi skora því ég er í skónum hans Andra Rúnars

Smári Jökull Jónsson skrifar
Grindvíkingar fagna marki
Grindvíkingar fagna marki Vísir/Hanna

Grindvíkingurinn Björn Berg Bryde skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild þegar hann skoraði fyrra mark Grindavíkur í 2-0 sigri á Keflavík í kvöld.

„Ég vissi að ég myndi skora í dag því ég er í skónum hans Andra Rúnars þannig að það kom ekkert annað til greina," sagði Björn í samtai við Vísi eftir leik.

Skórnir sem hann talar um eru af Andra Rúnari Bjarnasyni, fyrrum leikmanni Grindavíkur, sem varð markahæstur í Pepsi-deildinni í fyrra þegar hann jafnaði markametið margfærga og skoraði 19 mörk.

„Ég fékk þá lánaða í fyrra og ætlaði að borga honum fyrir þá í vetur en hann sagði mér að hirða þá svo lengi sem ég færi að skora þá. Það er allt á réttri leið,“ sagði Björn Berg skælbrosandi. Er stefnan sett á 19 mörk líkt og Andri gerði í fyrra?

„Aldrei að vita, 20 kannski.“

Sigurinn var sanngjarn í dag og eftir að Grindvíkingar komust yfir í upphafi síðari hálfleiks var í raun aldrei spurning hvar sigurinn myndi lenda.

„Keflavík eru með hörkulið og við vissum að ef við myndum halda hreinu þá værum við alltaf líklegir. Það var stefnan í dag og það gekk svo sannarlega eftir.“

„Í síðasta leik vorum við ekki nógu beittir. Við stóðum vörnina ágætlega en ekki nógu beittir sóknarlega og héldum boltanum illa. Í dag héldum við boltanum vel, vorum beittir á síðasta þriðjungi og uppskárum eftir því,“ sagði Björn Berg en Grindavík tapaði 1-0 fyrir FH í fyrstu umferðinni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.