Íslenski boltinn

Hendrickx: Ég á skilið að fá virðingu stuðningsmanna FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jonathan Hendrickx.
Jonathan Hendrickx. Vísir/Vilhelm
Blikar unnu sannfærandi 3-1 sigur á FH í annarri umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Jonathan Hendrickx skoraði eitt marka Blika gegn hans gamla félagi en hann lék áður með Hafnfirðingum við góðan orðstír.

„Við vildum taka þrjú stig í dag. Við vorum betra liðið og það er góð tilfinning að vera á toppnum,“ sagði hann en Blikar eru með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leikina.

Hendrickx skoraði mark sitt beint úr aukaspyrnu en það var þriðja mark Blika í leiknum. „Gunnar hefði vafalaust getað gert betur en ég vildi láta reyna á hann og bað því um að fá að taka spyrnuna. Mark er mark og það var gaman að sjá hann inni.“

Eftir markið hljóp Hendrickx upp að stuðningsmönnum FH og fagnaði marki sínu fyrir framan þá, FH-ingum til mikillar gremju. Hendrickx fékk að líta gula spjaldið fyrir fögnuðinn.

„Ég hef heyrt margt misjafnt síðustu mánuðina eftir að ég samdi við Breiðablik. Ég vildi ekki gefa nein viðbrögð fyrir leik en á meðan honum stóð heyrði ég margt misjafnt - að ég væri hálfviti [e. wanker] og fleira í þeim dúr.“

„Það sem vakti fyrir mér var að biðja þá um að sýna mér virðingu. Ég sjálfur ber virðingu fyrir þessu félagi og öllum hjá FH. Þetta voru mín skilaboð. Ég bað þá um að þegja og bera virðingu fyrir mér, því ég tel að ég eigi hana skilið eftir allt það sem ég gerði fyrir FH.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×